Fara í efni  

Rakel leiðir starfshóp um uppbyggingu Sementsreitsins

Rakel Óskarsdóttir formaður starfshópsins
Rakel Óskarsdóttir formaður starfshópsins

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 2. október síðastliðinn erindisbréf vegna starfshóps um Sementsreitinn. Rakel Óskarsdóttir verður formaður. Rakel er bæjarfulltrúi og starfar við verslunarrekstur í  versluninni Bjargi. Hún er  viðskiptafræðingur frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst og MS í Markaðs- og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands. Hún starfaði áður sem markaðs- og atvinnufulltrúi Akraneskaupstaðar í nokkur ár. Aðrir í starfshópnum eru Bjarnheiður Hallsdóttir sem er með margra ára reynslu af ferðaþjónustu og rekur ferðaþjónustufyrirtækið Katla Travel og Dagný Jónsdóttir framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Samgöngustofu. Með starfshópnum starfa Sigurður Páll Harðarson framkvæmdastjóri umhverfis-og framkvæmdasviðs og Hildur Bjarnadóttir skipulagsfulltrúi. Hlutverk starfshópsins er að móta tillögur um hvernig staðið verður að  skipulagi og uppbyggingu á Sementsreitnum. Um er að ræða lóðir við Faxabraut 11A, Faxabraut 11B, Faxabraut 11C, Mánabraut 13, Mánabraut 20 auk lóða við Suðurgötu sem Akraneskaupstaður fékk með samkomulagi við Sementsverksmiðjuna hf,  31. júlí 2003.  Til viðbótar kemur síðan lóð við Faxabraut 11 þar sem Sementverksmiðjan er með starfsemi í dag. Þeirri lóð verður skilað 1.ágúst 2028. Meginverkefni starfshópsins verður að leiða vinnu um skipulag á Sementsreitnum, að leiða samráðsferli við íbúa, til dæmis í gegnum lögbundið ferli um skipulagslýsingu sem er undanfari skipulagsvinnu og að móta tillögur um hvernig sé best að standa að uppbyggingu á Sementsreitnum til lengri tíma litið. Stefnt er að því að tillögur að nauðsynlegum breytingum á aðalskipulagi verði lagðar fyrir skipulags-og umhverfisnefnd fyrir 1. ágúst 2015 og að tillögur að deiliskipulagi og tillögur um uppbyggingu svæðisins liggi fyrir í árslok 2015. 


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin alla virka daga
    kl. 09:30 - 12:00 og 12:30 - 15:30