Fara í efni  

Upplýsingar fyrir ferðamenn

Velkomin á Akranes

Akranes er tilvalinn áfangastaður ferðamanna enda gefast fólki fjölmörg tilefni til að heimsækja bæinn – allan ársins hring. Á Akranesi er margt skemmtilegt hægt að bralla og óvíða í bæjarfélögum má finna eins margar útivistarperlur og á Akranesi – ýmist innan eða við bæjarmörk. Nægir þar að nefna Akrafjallið sem dæmi en það fallega fjall laðar að sér fjölda fólks á hverjum degi. Gönguferð út með sjó inn að Elínarsæti á sólbjörtu sumarkvöldi er einnig ógleymanleg, ekki síst vegna hins fjölskrúðuga fuglalífs sem þar er og þá er útsýnið á þessum slóðum afar fallegt.

Írar námu land á Akranesi og halda Akurnesingar keltneskri arfleið sinni á lofti m.a. með bæjarhátíðinni Írskum dögum sem eru haldnir í byrjun júlí ár hvert. Akranes er gamalgróið sjávarþorp og hófst útgerð snemma á Akranesi. Á 17. öld myndaðist fyrsti vísir að sjávarþorpi á Skaganum og hefur tengingin við hafið haldist æ síðan. Í gamla bænum er einnig kirkjan á Akranesi sem er frá árinu 1896. Við sunnanverða ströndina eru byggingar Sementsverksmiðjunnar sem var starfandi í rúm 50 ár.

Vitarnir á Breið, njóta gríðarlega vinsælda en þar er hægt er að njóta listviðburða, útsýnis og norðurljósadýrðar þegar veðurfarið býður upp á það á vetrartíma. Þá er vinsælt að leika sér á Langasandi sem er Bláfánavottuð baðströnd með skeljasandsfjöru. Þaðan er stundað sjósund og á sólardögum er ströndin oft þéttsetin fólki. Fleiri afþreyingarsvæði eru á Akranesi, t.d. er hægt að skella sér í sund en í laugum okkar er vatn úr Deildatunguhver. Auðvelt að gera sér glaðan dag í Garðalundi, þar sem m.a. er hægt að grilla, fara í strandblak, frisbígolf, fótbolta og ýmislegt fleira. Við hliðina á Garðalundi er Garðavöllur, sem er glæsilegur 18 holu golfvöllur með æðislegu æfingasvæði.

Á Akranesi er í boði fjölbreytt úrval verslana og veitingahúsa fyrir ferðamenn einnig. Möguleikar eru á dagsferðum til Akraness frá Reykjavíkur annars vegar með Akranesferjunni sem fer frá Vesturbugt í Reykjavík og leggur að í höfninni á Akranesi (sjá hér) eða með leið 57 hjá Strætó bs (sjá hér).

Upplýsingamiðstöð Akraness
Akranesvita
Netfang: info@akranes.is og sími: 894-2500

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin alla virka daga
    kl. 09:30 - 12:00 og 12:30 - 15:30