Upplýsingamiðstöðin

Akranes er tilvalinn áfangastaður fyrir ferðafólk og þar er að finna marga áhugaverða staði og skemmtilega afþreyingu.

Brynjólfur Sveinsson, biskup í Skálholti, hóf útgerð frá Akranesi á sautjándu öld og myndaðist þá sjávarþorp yst á nesinu, sem kallað var Skipaskagi. Það er talið hafa verið eitt fyrsta sjávarþorp landsins og því má segja að Akranes sé fyrsti útgerðarbærinn á Íslandi. Neðsti hluti Akraness kallast Breið og út af henni gengur Suðurflös en þar standa tveir vitar. Gamli vitinn á Suðurflös var byggður árið 1918 og Akranesviti á árunum 1943-1944 en hann er opinn öll sumur frá 1. júní til 31. ágúst og fyrir hópa á veturna. Úr Akranesvita er magnað útsýni yfir bæinn og frábær fjallasýn. Að sjálfsögðu sinnir hann enn sínu upprunalega hlutverki en nú í seinni tíð hefur hann fengið nýtt menningarlegt hlutverk t.d. í formi hýsingar listaviðburða eins og tónleika, myndlistarsýninga o.s.frv..

Langisandurinn er án efa ein flottasta baðströnd á Íslandi og þar er góð aðstaða fyrir almenning og sjósundfólk og auðvelt er að njóta lífsins á Aggapalli ofan við sandinn. Dagsdvöl á Skaganum á fallegum sumardegi tryggir tanið og hraustlegt útlit.

Í Garðalundi, við golfvöllinn, er Skógræktarsvæði Akurnesinga. Þar eru leiktæki og grillskáli og frábær aðstaða til þess að koma með fjölskylduna eða hópa og eiga góða stund saman. Í námunda við Garðalund er safnasvæðið sem er skemmtilegt og fræðandi. Þar finna fróðleiksfúsir einstaklingar á öllum aldri eitthvað við sitt hæfi. Á Safnasvæðinu í Görðum kennir ýmissa grasa en gripaeign safnsins er fjölbreytt. Þar má finna hluti tengda atvinnuháttum og heimilshaldi auk hverskyns amboða sem tilheyra daglegum störfum til sjávar og sveit í gamla bændasamfélaginu. Þar er einnig að finna íþróttasafn Íslands og kaffihús og sýningarsal. Á svæðinu eru gömul hús af Akranesi sem eru opin safngestum. Safnið er lokað á veturna og opnar um miðjan júní fram til miðjan september. 

Akrafjall er eitt helsta tákn bæjarins en fjallið er auðvelt uppgöngu og kjörið fyrir fjölskylduferðir. Ganga á Akrafjall er kjörin fyrir spræka göngugarpa á öllum aldri, hvort sem farið er alla leið á toppinn eða í lautarferð inn í Berjadal. Eftir annasaman og ánægjulegan dag er síðan kjörið að setjast niður á einhverjum veitingastaða bæjarins og njóta þeirra lystisemda sem þar eru í boði.

Íþróttalíf er öflugt á Akranesi. Aðstaða til knattspyrnuiðkunnar eru mjög góð jafnt innan sem utan dyra, Garðavöllur er á meðal bestu 18 holu golfvalla á Íslandi með góðri æfinga- og keppnisaðstöðu. Ekki skemmir frábært umhverfi fyrir því Akrafjallið vakir yfir vellinum sem liggur meðfram Garðalundi. Í Jaðarsbakkalaug er svo hægt að taka sund í 25 metra útilaug eða slaka á í heitum pottum. Einnig er hægt að skemmta sér í vatnsrennibraut laugarinnar.  Ekki amalegt að koma og baða sig í vatni úr Deildartunguhver, vatnsmesta hver Evrópu.

Menningarlífið á Akranesi er skemmtilegt, veglegar verslanir, blómlegt bíó og vinalegir veitingastaðir. Hér eru árlega haldnar bæjarhátíðirnar Írskir dagar, í byrjun júlí, og Vökudagar, í byrjun nóvember.

Afhverju að heimsækja Akranes? Vonandi hafa þessar upplýsingar svarað spurningunni en ef ekki, hafðu þá samband við okkur.

Upplýsingamiðstöð Akraness
Suðurgötu 57
Sími 433 1065
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu

Akraneskaupstaður

  • Stillholti 16-18, 300 Akranes
  • Sími 433 1000
  • Fax 433 1090
  • Kt: 410169-4449

Skrifstofan er opin alla virka daga kl. 09:30 - 12:00 og 12:30 - 15:30  |  Hafa samband