Fara í efni  

Vel heppnaðir Írskir dagarRauðhærðasti Íslendingurinn - Hálfdán Mörður Gunnarsson
Það fór líklega ekki framhjá nokkrum manni að Írskir dagar voru haldnir hátíðlegir á Akranesi um helgina. Mikill fjöldi lagði leið sína í bæinn og talið er að um 10 þúsund manns hafi sótt Akranes heim þrátt fyrir að veðurguðirnir hafi látið skína í tennurnar á köflum.

Hátíðin hófst á fimmtudag með írskri menningarveislu. South River Band lék þar fyrir gesti og fékk til liðs við sig söngkonuna Hönnu Þóru Guðbrandsdóttur og Melanie Adams en sú síðarnefnda er af írsku bergi brotin. Gríðarleg stemning var í Vinaminni og ljóst að Skagamenn kunnu vel að meta þetta þjófstart.


 


Á föstudag var rok og rigning en það kom ekki í veg fyrir góða þátttöku í öllum dagskrárliðum. Fleiri hundruð manns tóku þátt í skrúðgöngu Skagamótsins, 50 öflugir krakkar byggðu sandkastala af miklum móð á Langasandi, torgið var fullt af ungum aðdáendum Selmu Björnsdóttur og talið er að vel yfir 1000 manns hafi mætt á kvöldvöku og brekkusöng að loknum götugrillunum um kvöldið. Það er því óhætt að segja að Skagamenn og gestir þeirra eigi hrós skilið fyrir að láta ekki deigan síga og haga seglum eftir vindi í bókstaflegri merkingu.


 


Laugardagurinn rann upp bjartur, fagur og þurr og ekki annað hægt en að hrósa happi yfir því. Hátíðahöldin náðu hámarki þennan dag með stóru tívolíi, mikilli fjölskyldudagskrá á þyrlupallinum, kassaklifri, trampolínkeppni, Hildi Völu hjá Símanum, dorgveiðikeppni, golfmóti og loks Lopapeysunni þar sem á milli 3 og 4 þúsund manns skemmtu sér fram undir morgun.


 


Mikil vinna liggur að baki hátíð sem þessari og hér ber að þakka þeim sem lögðu hönd á plóginn til þess að hún gæti orðið að veruleika. Ber þar helst að nefna Björgunarfélag Akraness, starfsmenn vinnuskólans, Hvíta hússins, íþróttahússins og áhaldahússins, Skagaleikflokkinn, þjálfurum Fimleikafélags Akraness og svo mætti lengi telja.


Auk þess eru styrktaraðilum Írskra daga hér færðar kærar þakkir en það voru Húsasmiðjan, Landsbankinn, Flugleiðir, Ferðamálaráð og Akraneskaupstaður sem buðu upp á Írska daga í ár.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00