Fara í efni  

Umsóknarfrestur um styrki framlengdur

Umsóknarfrestur um styrki frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til markaðsrannsókna hefur verið framlengdur til 29. maí nk. Um er að ræða styrki til tveggja verkefna; markaðsrannsóknir á sæbjúgum til útflutnings til Kína og markaðsrannsóknir á nýtingu fiskslógs. Verkefnin munu verða unnin á Akranesi og er heildarfjárhæð styrkjanna tveggja 840.000 krónur og munu þeir renna óskiptir til nemendanna sem vinna að umræddum rannsóknum. 

 

 

 

Markaðsrannsóknir á sæbjúgum til útflutnings til Kína

 

Undanfarin ár hafa nokkur íslensk fyrirtæki farið inn á kínverskan markað með sölu á íslenskum sæbjúgum. Atvinnugreinin er ung og markaðurinn nýr og flókinn og því er mikilvægt fyrir þau fyrirtæki sem stunda veiðar og sölu á þessari spennandi vöru að læra sem mest um kínverskan markað. Sæbjúgu eru talin herramanns matur í Kína og eru auk þess talin geta aukið kyngetu karlmanna ? eins og reyndar  á við um margar aðrar sjávarafurðir þar! Þessi trú og vinsældir sæbjúgna á matseðlum kínverja hafa skapað vörunni mjög hátt verð og sömuleiðis góða möguleika íslenskra fyrirtækja á þessum markaði.  

Sæbjúgu hafa veiðst í þónokkru magni á miðunum í kringum Vesturland og hafa þær veiðar haft góð áhrif á atvinnulíf margra bæjarfélaga á svæðinu. Þessi atvinnugrein, eins og annar útflutningur Íslendinga, hefur notið góðs af lágu gengi krónunnar og jafnframt eru horfur á kínverskum markaði mjög góðar þegar litið er til kaupmáttaraukningar Kínverja og hækkandi gengis yuansins.  

 

Sjávargull ehf er eitt þeirra fyrirtækja sem hefur haslað sér völl í þessari nýju atvinnugrein og hefur fyrirtækið tekið þátt í umsókn um verkefna- og rannsóknarstyrk til Nýsköpunarsjóðs námsmanna með Akraneskaupstað. Sótt var um styrk til þess að háskólastúdentar milli anna gætu unnið markaðsrannsókn fyrir vöruna á kínverskum markaði og hefur sú umsókn verið samþykkt af sjóðnum. Samþykktin kemur til með að skapa vinnu í þrjá mánuði fyrir þann umsækjanda sem hlýtur starfið og mun Akraneskaupstaður einnig leggja til mótframlag til verkefnisins.

 

 

 

Markaðsrannsóknir á nýtingu fiskslógs

 

Ætla má að fiskslóg sé ekki ofarlega í hugum landsmanna þegar kemur að tækifærum til útflutnings eða nýtingar á sjávarafurðum en áætlað er að þúsundum tonna af fiskslógi sé fargað ár hvert með talsverðum tilkostnaði hjá helstu útgerðarfyrirtækjum landsins. Mar BioTech er fyrirtæki sem hefur komið auga á hugsanlegt tækifæri á þessu sviði og hefur stefnt að arðbærri nýtingu fiskslógs í samvinnu við Matís og AVS (rannsóknasjóður í sjávarútvegi). Aðallega er horft til nýtingar fiskslógs í lífrænan áburð eða próteinafurðir. 

 

Mar BioTech hefur nú í samvinnu við Akraneskaupstað sótt um styrk til Nýsköpunnarsjóðs námsmanna  fyrir markaðsrannsókn á þessu sviði og hefur sú umsókn verið samþykkt af NSN. Samþykktin kemur til með að skapa vinnu í þrjá mánuði fyrir þann umsækjanda sem hlýtur starfið og mun Akraneskaupstaður einnig leggja til mótframlag til verkefnisins. 

 

 

 

Umsóknir um verkefnin

 

Umsjón með vinnslu markaðsrannsóknanna verður hjá þeim fyrirtækjum sem um ræðir en þó að mestu hjá atvinnuráðgjafa Akraneskaupstaðar. T.d. eru fyrirhugaðar heimsóknir í vinnslustöðvar fyrirtækjanna og önnur kynning á þeirra störfum. Verkefnin munu verða unnin á Akranesi og er heildarfjárhæð styrkjanna tveggja 840.000 krónur og munu renna óskiptir til nemendanna sem vinna að umræddum rannsóknum. 

 

Umsækjendum er bent á að sækja um rafrænt á vef Akraneskaupstaðar og er umsóknarfrestur til  26. maí 2010. Hægt er að skila inn skriflegum umsóknum til þjónustuvers Akraneskaupstaðar að Stillholti 16-18 og eru eyðublöð aðgengileg þar. Verkefnin eru sniðin að nemendum með reynslu af markaðsrannsóknum og/eða með viðskiptafræði eða sambærilega menntun. Hinsvegar er öllum háskólanemum milli anna boðið að sækja um.  

 

Allar nánari upplýsingar um verkefnin veitir Jóhannes Gíslason, atvinnuráðgjafa hjá Akraneskaupstað (johannes.gislason@akranes.is).


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00