Fara í efni  

Þorpið - Ný félagsaðstaða sem leysir Arnardal og Hvíta húsið af hólmi

Laugardaginn 5. apríl sl. var ný félagsaðstaða tekin í notkun að Þjóðbraut 13. Þar mun sú starfsemi sem áður fór fram í Hvíta húsinu og Arnardal framvegis eiga sér samastað.

 

Arnardalur hefur í tæplega 30 ár hýst félagsmiðstöð fyrir 13 ? 16 ára unglinga. Þegar Arnardal var komið á fót voru ekki margar félagsmiðstöðvar til utan Reykjavíkur og margt í starfsemi Arnardals verið framsækið á landsvísu í gegnum árin. Margt hefur breyst í starfi Arnardals í áranna rás og markmiðið er að starfið taki mið af breyttum forsendum í samfélaginu almennt. Ekki er hægt að nefna Arnardal án þess að nefna Einar Skúlason sem stýrði starfinu lengst af. Hann hefur eytt drjúgum tíma af starfsævinni í þágu Arnardals og þeirra sem nýtt hafa sér þau uppbyggilegu tómstundatilboð sem þar hafa verið.

 

Hvíta húsið á sér ekki eins langa sögu og Arnardalur en það var ekki síst vegna frumkvæðis Rauða krossins að Hvíta húsið tók til starfa árið 2002. Hvíta húsið er tómstundahús 16 ára og eldri og er það vettvangur fyrir ungmenni til að hittast og skapa sér heilbrigðar tómstundir á eigin forsendum. Akraneskaupstaður tók alfarið við rekstri Hvíta hússins 2004 en Rauði krossinn er sérlegur vildarvinur starfseminnar áfram ef þörf krefur. Er Rauða krossinum hér með þökkuð aðkoma að stafi Hvíta hússins.

 

Í haust var unnin stefnumótun á vegnum starfshóps sem tómstunda- og forvarnarnefnd skipaði.  Stefnumótunin tók til þess að móta framtíðarsýn í æskulýðsmálum og í hnotskurn felast áherslunar í eftirfarandi þremur þáttum:

 

 

 • Akraneskaupstaður leggur áherslu á að inntak og skipulag æskulýðsmála verði í takt við þarfir samfélagsins á hverju tíma
 • Akraneskaupstaður leggur áherslu á fjölbreytt æskulýðsstarf sem styðji við heilbrigða lífshætti
 • Akraneskaupstaður leggur áherslu á lýðræðisleg gildi þar sem börn og unglingar eru þátttakendur í umræðu og ákvarðanatöku

 

Starfshópurinn fjallaði einnig um húsnæðimál málaflokksins og mátaði sínar tillögur við Þjóðbraut 13. Kirkjubraut 48 hentaði ekki lengur undir starfsemina og Hvíta húsið þarfnaðist mikilla viðgerða. Nú hefur reynt á það um nokkurn tíma að hafa starfsemi sem áður var í Hvíta húsinu og Arnardal undir sama þaki að Þjóðbraut 13 og hefur það gengið aldeilis prýðilega.

 

Við opnunarathöfnina sl. laugardag sagði Hildur Karen Aðalsteinsdóttir formaður tómstunda- og forvarnarnefndar m.a. ?Nú er það í höndum okkar allra að sjá til þess að hér fari fram skemmtileg og uppbyggjandi starfsemi sem um leið hefur mikið forvarnargildi.? Hún sagði einnig frá nafnasamkeppni og að nafnið ?Þorpið? hefði orðið fyrir valinu og hefði það margvíslega skírskotun til starfsemina. Meðal annars var nefnt orðtakið: Það þarf heilt þorp til að ala upp eitt barn. Höfundur tillögunnar er Lúðvík Gunnarsson, deildarstjóri æskulýðs- og forvarnarmála.

 

Við opnunarathöfnina flutti Heiðrún Janusardóttir verkefnisstjóri æskulýðs- og forvarnarmála einnig ávarp og fagnaði þessum tímamótum í æskulýðsstarfi. Lárus Björgvinsson formaður Arnardalsráðsins og fulltrúi í Unglingaráði Akranss flutti einnig ávarp og lýsti yfir ánægju með að ungmennalýðræði væri í heiðri haft á Akranesi og hlustað á skoðanir og tillögur ungs fólks. Fulltrúar í bæjarstjórn og tómstunda- og forvarnarnefnd voru síðan kallaðir upp og fengu rós í þakklætisskyni fyrir að hafa tekið þá ákvörðun að tómstunda- og félagsstarfsemi ungs fólks þyrfti nýja aðstöðu. Einnig sungu hátónsbarkar 2008 og danshópur sýndi dansatriði. Öllum viðstöddum var síðan boðið að skoða húsnæðið.

 

Æskulýðsstarfi hefur nú verið sköpuð úrvals aðstaða þar sem hægt er að vera með tónleika, dansleiki, veita fötluðum grunnskólanemendum tómstundastarf að loknum skóladegi, vera með skapandi starf, horfa saman á dvd diska, tefla, spila pool og borðtennis svo eitthvað sé nefnt. Einnig er fyrirtaks fundaaðstaða sem NFFA nýtir sér ásamt foreldrafélögum og er það von mín að sem flest ungmenni finni sér eitthvað við hæfi.  Til hamingju.

 

 

 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00