Fara í efni  

Þjóðlagasveitin fær Menningarverðlaun Akraness 2009

Á tónleikum Þjóðlagasveitar Tónlistarskólans á Akranesi, sem haldnir voru  í Tónbergi fyrr í kvöld fyrir fullum sal af ánægðum tónleikagestum, var sveitinni og stjórnanda hennar, Ragnari Skúlasyni, veitt hin árlegu Menningarverðlaun Akraness fyrir framlag þeirra til menningar og lista á Akranesi á árinu. 


Á fundi sínum hinn 3. nóvember sl. ákvað stjórn Akranesstofu einróma að Menningarverðlaun Akraness árið 2009 hljóti Þjóðlagasveit Tónlistarskólans á Akranesi og stjórnandi hennar, Ragnar Skúlason, fyrir framlag þeirra til menningar- og listalífs á Akranesi.  Viðurkenningin er ekki síður veitt Þjóðlagasveitinni fyrir það að bera hróður þess öfluga menningarlífs sem sprottið er upp á Akranesi víða um land og raunar einnig langt út fyrir landssteinana. 


Þjóðlagasveitin hefur verið starfrækt í núverandi mynd  sl. átta ár og hefur Ragnar Skúlason verið stjórnandi sveitarinnar frá upphafi.  Tilurð sveitarinnar má rekja til verkefnis sem Ragnar þróaði á sínum tíma, þar sem hann blandaði saman listgreinum og bjó til nýtt tónleikaform sem hefur vakið mikla athygli bæði hér heima sem og erlendis. 


Það má líka segja að sveitin sé sprottin úr því öfluga og gróskumikla starfi sem fram fer innan Tónlistarskólans.  Þangað sækir sveitin sitt bakland í frábæra aðstöðu til æfinga undir leiðsögn þess hæfileikafólks sem þar starfar.  Það er þó ekki síst fyrir elju og áhuga Ragnars Skúlasonar sem sveitin hefur náð þeim árangri og vakið eins mikla athygli og raun ber vitni.  Með þessu er þó alls ekki dregið úr þætti hinna ungu kvenna í sveitinni sem hafa með hæfileikum sínum, áhuga og eljusemi  lagt allan sinn metnað í þau verkefni sem sveitin hefur staðið fyrir frá upphafi. 


Þjóðlagasveitin hefur á undanförnum árum haldið marga tónleika og gefið út geisladiska með tónlistarflutningi sínum.  Tónleikar sveitarinnar hafa verið árlegur viðburður og þá hefur sveitin leikið með mörgum þekktum listamönnum auk Sinfóníuhljómsveitar Íslands.  Á tónleikum sínum hefur sveitin jafnan blandað saman ólíkum listformum eins og hljóðfæraleik, söng, talkór og nú síðast leiklist. Tónleikar sveitarinnar hafa alltaf verið vel sóttir og voru tónleikarnir í Tónbergi í kvöld greinilega engin undantekning frá því. 


Akranesvefurinn óskar Þjóðlagasveitinni til hamingju með verðlaunin og óskar henni alls hins besta á komandi árum við spennandi og krefjandi verkefni.


 

 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00