Fara í efni  

Taktviss tónmenntakennari fær menningarverðlaun Akraness

Það er Heiðrún Hámundardóttir tónmenntakennari sem hlýtur menningarverðlaun Akraness árið 2014. Menningarverðlaun Akraness eru afhent einu sinni á ári á menningarhátíðinni Vökudögum en hátíðin stendur núna yfir frá 30. október til 8. nóvember. Verðlaun þessi eru veitt einstaklingi eða hópi sem hefur á einhvern hátt skarað fram úr í menningarlífi Akraness. Að þessu sinni er það einstaklingur sem hefur varið tíma sínum í að vinna með ungu fólki, kveikja áhuga þess og hvetja það áfram sem fær verðlaunin.

Heiðrún Hámundardóttir er menntuð í Tónlistarskólanum á Akranesi og á Seltjarnarnesi. Hún lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1999 og stundaði nám á árunum 2002 til 2005 í jazzsöng í Tónlistarskóla F.Í.H. í Reykjavík. Auk þess nam hún „Rytmisk musik og bevægelse“ við Det Jyske Musikkonservatorium í Árósum og lauk því námi árið 2009. Heiðrún kennir tónmennt við þrjá skóla í dag, í Brekkubæjarskóla, Tónlistarskólann á Akranesi og í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.

Heiðrún hefur stofnað tónlistarbraut á unglingastigi í samstarfi við Grundaskóla og Tónlistarskólann á Akranesi. Hún er ötul við alla vinnu með unglingum, skipuleggur Ungir-Gamlir á Akranesi þar sem tónlistarnemendur fá að spreyta sig með eldri átrúnaðargoðum sínum í tónlist á æfingum og á sviði. Einnig hefur hún umsjón með Hátónsbarkakeppninni á Akranesi þar sem margir góðir söngvarar hafa stigið sín fyrstu skref á sviði. Hún samdi og sá um tónlistar- og leikstjórn í söngleiknum Elskaðu friðinn ásamt Samúel Þorsteinssyni sem settur var upp í Bíóhöllinni á Akranesi vorið 2012.

Þá hefur Heiðrún undirbúið tónlistaratriði fyrir hátíðir á Akranesi í gegnum tíðina með lúðrasveitum, kórum og hljómsveitum og segja má með sanni að hún sé mentor fyrir framtíðar listamenn Akraness.

Heiðrún starfar sjálf í hljómsveit í dag, sem kölluð er Hvísl. Ásamt henni skipa hljómsveitina þau: Elfa Margrét Ingvadóttir, Gunnar Sturla Hervarsson, Gunnhildur Vilhjálmsdóttir og Samúel Þorsteinsson en þau spila á bassa, gítar, congas, djembe, cajon-kassa, klukkuspil, klarinett, melodika, trompet, harmóniku, píanó, baritón-horn, urdu og ýmist slagverk svo eitthvað sé nefnt.

Heiðrún vinnur einstaklega óeigingjarnt starf. Hún hefur náð árangri með þolinmæði og ástríðu fyrir tónlist. Með þeirri elju kemst hún óvenjulega langt með viðfangsefnið. Árangur hennar er eftirtektarverður og til mikillar fyrirmyndar. Það er sönn ánægja fyrir menningarmálanefnd Akraneskaupstaðar að veita Heiðrúnu Hámundardóttur þessi heiðursverðlaun fyrir litríkt og taktfast starf í þágu menningar á Akranesi.

Akraneskaupstaður óskar Heiðrúnu innilega til hamingju. 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00