Fara í efni  

Stúkuhúsið flutt á safnasvæðið að Görðum

Þann 23.des. á Þorláksmessu var Stúkuhúsið flutt frá Háteigi 11 á Safnasvæðið að Görðum.  Undirbúningur varðandi flutning á húsinu hefur staðið yfir í nokkurn tíma og tókst flutningur þess vel miðað við aðstæður.  Húsið er járnklætt timburhús, hæð og ris ca. 85 m2 að grunnfleti (9.6 x 8.95) og þyngd ca.23 tonn.  Farið var með húsið niður Háteig og inn á Vesturgötu og síðan Bárugötu, Hafnarbraut, Akursbraut, Suðurgötu, Skagabraut, Þjóðbraut, Innnesveg, Víkurbraut og inn á Safnasvæðið þar sem húsið var sett niður á sinn varanlega stað. 

 Að upplagi er Stúkuhúsið byggt sem hlaða kringum 1916 og tilheyrði húseigninni Háteig.  Stúkan Akurblóm sem starfað hefur á Akranesi frá 1887 kaupir húsið árið 1948 og endurgerir til að starfrækja sem framtíðar stúkuhús.  Húsið var vígt sem stúkuhús þann 4.feb. 1950 og notað sem slíkt til byrjun árs 2000 er stúkan var aflögð og Akraneskaupstaður eignast húsið.  Húsið er í góðu ásigkomulagi og hefur verið sæmilega viðhaldið.  Allir innviðir eru upprunalegir frá því stúkan tók til starfa og setja innréttingar skemmtilegan svip á alla umgjörð hússins.  Af hverju er verið að varðveita þetta hús ?  Því miður er það svo að minjar um íslenska byggingarsögu (merkilega eða ómerkilega) eru orðnar fáséðar.  Íslensk byggingarsaga er ekki löng né yfirgripsmikil en þeim mun mikilvægari.  Það hefur of mikið farið forgörðum í varðveislu íslenskra bygginga í gegnum tíðina og því ber okkur að vera á varðbergi.  Flest hús varðveitast svo lengi sem eigandinn hefur hag af því.  Í því felst að allar byggingar eru varðveisluverðar jafn lengi og þær eru nothæfar og það borgar sig að nota þær.  Varðveislugildi húsa er samsett úr mörgum þáttum.  Hús getur haft ákveðið gildi aldur síns vegna, vegna sögulegs heimildargildis eða vegna þess hve sjaldgæft húsið eða húsagerðin er.  Enn fremur geta hús verið mikilvæg sem tákn fyrir ákveðnar hugmyndir eða minningu um menn eða atburði.  Stúkuhúsið hefur í gegnum tíðina verið notað sem samkomuhús fyrir góðtemplararegluna á Akranesi og einnig hafa hin ýmsu félagasamtök verið með samkomur í þessu húsi ásamt því að fundir bæjarstjórnar voru á ákveðnu tímabili haldnir í húsinu.  Húsið hefur að mörgu leyti menningarsögulegt gildi fyrir Akranes ásamt því tilfinningargildi sem húsið hefur fyrir margan Skagamanninn. 
Nú þegar búið er að flytja Stúkuhúsið inn á Safnasvæðið að Görðum þá verður hafist handa á næsta ári við að endurgera húsið og koma lifandi starfsemi í það sem fyrst.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00