Fara í efni  

Sr. Björn gefur Akurnesingum einkabókasafn sitt

Sr. Björn Jónsson, fyrrverandi prófastur á Akranesi hefur gefið Akurnesingum glæsilegt einkabókasafn sitt, en formleg afhending þess fór fram við athöfn á heimili þeirra Sr. Björns og eiginkonu hans, Sjafnar Pálfríðar Jónsdóttur, sl. miðvikudag. Það var Árni Múli Jónasson, bæjarstjóri sem veitti gjöfinni viðtöku en viðstaddir voru einnig Sveinn Kristinsson, forseti bæjarstjórnar og Guðmundur Páll Jónsson, formaður bæjarráðs auk Halldóru Jónsdóttur, bæjarbókavarðar. Gjöfin verður varðveitt í Bókasafni Akraness en þar sem safnið er afar stórt og telur mikinn fjölda bóka sem margar eru afar verðmætar og um leið fágætar mun taka nokkurn tíma að fara í gegnum safnið, flokka það og koma í það horf að hægt sé að stilla því fram til sýnis og skoðunar.


Sr. Björn gerði gestum grein fyrir sínum mikla bókaáhuga og -söfnun og dró fram nokkrar þeirra fágætu bóka og tímarita sem safn hans hefur að geyma. Má þar nefna m.a. umtalsvert safn bóka sem gefnar voru út af Íslendingum í Vesturheimi, en einnig eru í safni hans bækur er tilheyra sk. Beitistaðaprenti, Leirárgarðaprenti og bækur sem prentaðar voru í Skálholti fyrr á öldum.  


Þessa höfðinglegu gjöf tileinkar Sr. Björn tengdaföður sínum, Sr. Jóni M. Guðjónssyni en hún er  einnig tileinkuð syni þeirra hjóna, Sr. Björns og Sjafnar, Páli, sem lést 25. apríl árið 1961, en Páll hefði orðið fimmtugur í ár hefði hann lifað.


Bæjarstjóri þakkaði sr. Birni fyrir gjöfina og þann mikla höfðingsskap sem hann hafi sýnt með því að færa Akraneskaupstað slíka gjöf.  Gjöfin endurspegli vel þann hug sem hann beri til bæjarins og bæjarbúa, sem koma til með að njóta gjafarinnar um ókomin ár.


Á myndinni hér til hliðar má sjá þau Guðmund Pál, Sr. Björn, Árna Múla og Sjöfn við afhendingu bókagjafarinnar.

 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00