Fara í efni  

Spennandi ferðasumar framundan

Á undanförnum vikum hefur verið unnið að undirbúningi komandi ferðasumars á Akranesi en stöðugt er unnið að því að bæta þjónustu við gesti og ferðafólk og fjölga þeim afþreyingarmöguleikum sem í boði eru á Akranesi. Í ljósi þess að Akranes og Borgarnes eru, skv. könnun Ferðamálastofu, þriðju vinsælustu áfangastaðir Íslendinga á ferðum um eigið land, er afar mikilvægt að vanda til verka og taka vel á móti góðum gestum. Þá fjölgar stöðugt nýjum gistimöguleikum á Akranesi en í dag, föstudag, opnar t.a.m. gistihúsið Birta í húsnæði heimavistar FVA og verður opið í allt sumar.

 

Í vikunni hefur nýjum kynningarbæklingi um Akranes verið dreift víða um bæinn og raunar víða um land.

 

Að undanförnum hefur einnig verið unnið að frekari uppbyggingu í Garðalundi. Útbúinn hefur verið nýr og glæsilegur strandblakvöllur, minigolfið er komið á sinn stað og fleiri brautir settar upp en þær eru nú 11 talsins. Trésmiðjan Akur á Akranesi annaðist hönnun og gerð brautanna, sem vakið hafa mikla athygli og voru afar vinsælar síðasta sumar. Lagt hefur verið rafmagn og vatn í grillskálann glæsilega og í næstu viku verður ný dótakista opnuð fyrir gesti í Garðalundi, full af nýjum og spennandi leikföngum. Í næstu viku verða nemendur í Grundaskóla í Garðalundi og munu þeir m.a. koma fyrir fuglahúsum og sérstökum ?andahúsum? fyrir endurnar á tjörnum skógræktarinnar, en þar geta þær leitað skjól með afkvæmi sín fyrir ágengum mávum. Þá stendur til að fjölga leiktækjum og svona má áfram telja.

 

Dótakistur verða nú einnig settar á Aggapall og í Akraneshöll. Á Aggapalli verða ýmis ?strandvæn? leiktæki fyrir gesti á Langasandi en í Akraneshöll verða alls kyns leikföng fyrir börn jafnt sem fullorðna.

 

Stefnt er að því að stóri vitinn á Breiðinni verði opinn alla laugardaga í sumar og er fyrsti formlegi opnunardagurinn laugardaginn 2. júní nk. en þann dag er von á hópi erlendra listamanna á Akranes sem ætla að setja upp útilistaverk á Breiðinni sem standa mun þar uppi í súmar. Er þetta gert í tilefni af 70 ára afmæli Akraneskaupstaðar. Væntanlega verða ýmsar listrænar uppákomur í tengslum við opnun vitans en þær verða auglýstar betur síðar.

 

Bærinn er nú allur að færast í sumarbúning og verður væntanlega kominn í sitt besta skart þegar gestum fjölgar í bænum. Raunar er stöðug umferð á tjaldsvæði bæjarins í Kalmansvík og þá má vænta þess að þúsundir gesta heimsæki bæinn í tengslum við Norðurálsmótið 15. til 17. júní nk. 

 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00