Fara í efni  

Sjómaðurinn flytur í dag

Sjómaðurinn - verður fluttur í Skógræktina í Garðalundi vegna framkvæmda á Akratorgi. Eins og fram hefur komið eru fyrirhugaðar endurbætur á Akratorgssvæðinu. Torgið verður minnkað og gróður fjarlægður að hluta til að rýma fyrir fleiri bílastæðum og aðstöðu fyrir strætisvagna. Af þessum sökum verður að flytja listaverkið "Sjómanninn" um set og hefur honum verið fundinn framtíðarstaður í Garðalundi, skógrækt Akurnesinga. Unnið er að undirbúningi flutningsins, en gert er ráð fyrir að hann verði fluttur af stalli sínum síðdegis í dag, þriðjudag um kl. 17:00.


 


"Sjómaðurinn", sem er eftir Martein Guðmundsson, hefur staðið vaktina á Akratorgi um árabil en listaverkið var afhjúpað árið 1967 af  Lilju Pálsdóttur, eiginkonu Séra Jóns M. Guðjónssonar prests og prófasts á Akranesi og er reist til minningar um drukknaða sjómenn. Á undirstöðum verksins er hending úr kvæðinu "Sjómannasöngur" eftir Steingrím Thorsteinsson - líklega valin af Séra Jóni: "Sjómannslíf í herrans hendi / helgast fósturjörð". Marteinn Guðmundsson fæddist árið 1905 og lést árið 1952. Hann nam bæði hér á Íslandi, í París og í Kaupmannahöfn.


 

 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00