Fara í efni  

Síðasti kynningarfundur um ný skólalög 19. janúar

Sameiginlegri fundaferð menntamálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um landið til kynningar og umræðna um ný lög um skóla og menntun lýkur með fundi í Reykjavík mánudaginn 19. janúar, í Skriðu, sal menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð. Fundurinn mun standa frá kl. 14:00 -16:00 og verður honum sjónvarpað beint á slóðinni http://sjonvarp.khi.is/. Um er að ræða fund fyrir stjórnsýsluna; sveitarstjórnarmenn, starfsmenn skóla- og fræðsluskrifstofa, skólanefndir og skólastjórnendur.

 

Á fundinum verður megináherslan lögð á að fjalla um þær breytingar og nýjungar sem lögin boða, með áherslu á leik- og grunnskólalög, og hafa munu sérstök áhrif á starfshætti sveitarfélaga og starfsmanna þeirra er sinna málefnum leik- og grunnskóla fyrst og fremst. Fjallað verður um ýmsar spurningar sem vaknað hafa í upphafi skólaársins, þ.á.m. gjaldtöku vegna skólamáltíða og ferðalaga nemenda, kostnað vegna náms grunnskólanemenda í framhaldsskólum, skipan skólaráða, samrekstrarmöguleika o.fl.  Þá verður vikið að breytingum á hlutverki og skyldum skólastjórnenda og nýjum skyldum sveitarfélaga við eftirlit og mat á gæðum skólastarfs, vegna sérfræðiþjónustu o.fl. Spurt verður hvort skynsamlegt sé að setja á fót millikærustig innan sveitarfélags í ljósi kæruheimilda er tengjast ýmsum ákvæðum nýrra laga. Farið verður yfir stöðu reglugerðar- og námskrárvinnu í tengslum við lögin o.fl. Þessi álita- og umræðuefni auk þeirra annarra sem fundarmenn hafa áhuga á að bera upp verða í brennidepli á þessum fundum og gefinn verður góður tími til umræðna að loknum framsögum fulltrúa menntamálaráðuneytis og sambandsins.

Hlutaðeigendur eru hvattir til þess að nýta þetta tækifæri vel til þess taka virkan þátt í fundinum og koma skoðunum sínum á framfæri. Álit  sveitarstjórnarmanna og starfsmanna og stjórnenda skóla- og fræðslumála á nýjum lögum, væntanlegum reglugerðum og þeim áhrifum sem þau munu hafa á skólahald sveitarfélaga til framtíðar er afar þýðingarmikið innlegg í áframhaldandi starf og framþróun á grundvelli laganna,  þ.á.m. í tengslum við þá reglugerðarvinnu sem nú er hafin. Þeir sem ekki hafa haft tök á því til þess að sækja þennan fund eða hafa getað sótt kynningarfundina heima í héraði, hafa nú tækifæri til þess að fylgjast með útsendingu frá fundinum 19. janúar á vefslóðinni  http://sjonvarp.khi.is/.

 

 

 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00