Fara í efni  

Rólegt og fjölskylduvænt bæjarfélag helstu kostir

 

Á vegum Markaðsráðs Akraness voru nú í marsmánuði unnar tvær kannanir fyrir ráðið um viðhorf almennings gagnvart búsetu og þjónustu á Akranesi.  Annars vegar er um að ræða könnun Gallup um viðhorf til búsetu á Akranesi og hins vegar könnun nemenda Viðskiptaháskólann á Bifröst um viðhorf bæjarbúa á Akranesi til ýmissa þátta samfélagsins.

 

Könnun nemenda Viðskiptaháskólans á Bifröst
Könnunin er mjög jákvæð þegar litið er til þeirra þátta sem um var spurt.  Sérstaklega er ánægjulegt jákvætt viðhorf bæjarbúa til verslunar og þjónustu á Akranesi og sterk staða þessara þátta.  Þá er einnig ánægjulegt að sjá hversu margir gefa grunnskólunum og heilsugæslunni hæstu einkunn auk þess sem afstaða fólks til annarra opinberra þjónustuþátta sem um er spurt er afar jákvæð. Varðandi atvinnumálin þá virðist sem þeim fjölgi nokkuð sem sækja atvinnu og nám á höfuðborgarsvæðið og ber það vitni um að bættar samgöngur hafa komið í veg fyrir að fólk hafi flutt af svæðinu vegna þessara þátta og að búsetan hafi þannig styrkst.

 

Könnun Gallup
Almennt séð er niðurstaða könnunarinnar jákvæð fyrir samfélagið á Akranesi og góð vísbending um þá þætti sem nauðsynlegt er að leggja áherslu á þegar litið er til framtíðar varðandi uppbyggingu í bæjarfélaginu og þá ímynd sem bærinn vill skapa sér.

 

Þeim, sem hafa áhuga á að fá niðurstöður þessara kannana í heild sinni, er bent á að nálgast þær í afgreiðslu bæjarskrifstofunnar, Stillholti 16-18, á skrifstofutíma.

NIÐURSTÖÐUR

 

Könnun nemenda Viðskiptaháskólans á Bifröst

 

Könnunin náði til 300 íbúa Akraness, 16 ára og eldri og svöruðu 222 eða 74% úrtaksins.  Ekki náðist til 48 aðila eða 16% úrtaksins og 30 einstaklingar, eða 10% neituðu að svara.

 

Íbúarnir voru spurðir að ýmsu sem varðar þjónustu, þjónustuúrval, kosti og galla við að búa á Akranesi, hvernig íbúunum líkar við ákveðna tegund þjónustu sveitarfélagsins og hvar viðkomandi stundar atvinnu eða nám.

 

Aðspurðir um hversu mikið þjónusta á Akranesi væri notuð kom fram að 84,6% bæjarbúa nýta sér verslun og þjónustu mjög mikið eða frekar mikið og að einungis 4,5% svarenda nýta verslun og þjónustu á Akranesi mjög lítið.  Af þeim sem nýta verslun mjög mikið eða frekar mikið þá vísa 28% til búsetu sinnar, 27% benda á að það sé þægilegt og einfalt að versla á Akranesi og 23% vilja styrkja sína heimabyggð.  Af þeim 10,4% sem nýta verslun og þjónustu frekar lítið eða mjög lítið bera helmingur við ýmsum ástæðum, en 25% veit ekki af hverju eða svara ekki.  Þeir sem bera við of litlu vöruúrvali eru 21%, en aðeins 4% sem telja vöruverð of hátt.  Þegar spurt er hvaða vöru, þjónustu eða aðra þætti vanti helst á Akranesi þá telja langflestir, eða 24,6% að ekki vanti neitt sérstakt, 20,5% telja upp ýmsa þætti og 11,9% nefna að helst vanti skóbúð.

 

Þegar spurt er um helstu kosti þess að búa á Akranesi tilgreina 24% rólegt bæjarfélag, 16% nefna fjölskylduvænt bæjarfélag, 15,2% nefna að stutt sé til Reykjavíkur og 11,1% ýmislegt eins og veðursæld, góða þjónustu, stuttar vegalengdir o.fl.   Aðspurðir um ókostina nefna 31,9% ýmis atriði, 29,9% höfðu ekki skoðun eða svöruðu ekki, en 15,0% nefndu lítið atvinnuframboð.

 

 

 

Í könnuninni kom fram að 57% aðspurðra stunduðu atvinnu á Akranesi, 12% á Vesturlandi utan Akraness og 5% stunduðu atvinnu á höfuðborgarsvæðinu.  23% svarenda voru nemar, öryrkjar, atvinnulausir, ellilífeyrisþegar og atvinnulausir og 2% í öðrum landshlutum. Fram kom að 16,2% svarenda fara reglulega á milli Akraness og höfuðborgarsvæðisins vegna náms eða atvinnu.

 

 

 

Þegar spurt var um afstöðu til þjónustu leikskóla, grunnskóla, heilsugæslu, þjónustu við fatlaða og varðandi félagslega aðstoð kom m.a. fram að 59% líkaði mjög vel eða frekar vel þjónusta leikskólanna, 80,6% líkaði mjög vel eða frekar vel þjónusta grunnskólanna.   84,4% þótti þjónusta heilsugæslunnar mjög góð eða frekar góð og 41,4% taldi þjónustu við fatlaða mjög góða eða frekar góða.  Viðhorfið til félagslegrar þjónustu var að 34,7% töldu þjónustuna mjög eða frekar góða.  Rétt er að benda á að varðandi þjónustu leikskólanna var svarhlutfall þeirra sem ekki vissu eða vildu ekki svara 35%, varðandi þjónustu við fatlaða var hlutfallið 41,4%, varðandi þjónustu grunnskólanna 15,3% og varðandi félagslega aðstoð var hlutfall þeirra sem ekki vissu eða svöruðu ekki 48,2%.
 
Könnun Gallup

 

Kannað var viðhorf landsmanna til Akraneskaupstaðar og búsetu á Akranesi.  Úrtakið var fólk á aldrinum 16 ? 75 ára og var úrtakið 1151.  Þeir sem ekki vildu svara voru 219 og ekki náðist í 129.

 

Þegar spurt var að því hvort viðkomandi gæti hugsað sér að búa á Akranesi svöruðu 42% játandi en 58% neitandi.  Af þeim sem svöruðu játandi kom mjög sterklega til greina hjá 11% að búa á Akranesi en frekar sterklega hjá 89%.   Af þeim sem ekki vildu búa á Akranesi töldu 29% að einhver möguleiki væri þó á því, en 72% töldu það alls ekki koma til greina.  Í svörum við því hvers vegna til greina kæmi að búa á Akranesi var  m.a. vísað til ættartengsla, fyrri búsetu á Akranesi, góðra atvinnumöguleika,  að á Akranesi væri gott samfélag í hæfilegri fjarlægð frá Reykjavík, mátulega stór bær, barnvænt umhverfi, hófleg blanda af byggð og strjálbýli og fleira.

 

Þegar fólk var spurt um hvað því dytti fyrst í hug þegar Akranes væri nefnt nefndu 19,4% fótbolta og 5,7% ÍA.  17,8% nefndu Sementsverksmiðjuna, 9,9% Hvalfjarðargöngin og 7,4% Akraborgina.

 

 

 


Akranesi 17. apríl 2002

 

Gísli Gíslason, bæjarstjóri.
Magnús Magnússon, markaðsfulltrúi.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00