Fara í efni  

Ríkharður Jónsson heiðursborgari Akraness

Ríkharður Jónsson var í gær gerður að heiðursborgara á Akranesi við hátíðlega athöfn í Akraneskirkju að viðstöddum Hr. Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta og eiginkonu hans, forseta Alþingis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, velflestum þingmönnum kjördæmisins ásamt fjölda annarra góðra gesta. Gunnar Sigurðsson, forseti bæjarstjórnar Akraness afhenti Ríkharði sérstakt viðurkenningarskjal og táknrænan grip við þetta tilefni. Gunnar sagði m.a. í ræðu við þetta tilefni:


 


"Þegar litið er yfir farinn veg og saga Akraness s.l. 50 ár skoðuð er ljóst að knattspyrna er þar sá þáttur sem ber höfuð og herðar yfir aðra þætti samfélagsins.  Í öllum könnunum um ímynd Akraness og nú síðast í könnun Háskólans á Bifröst árið 2007 er það knattspyrnan á Akranesi sem langflestir nefna þegar spurt er að því hvað fólki dettur fyrst í hug þegar Akranes er nefnt.  Um það eru einnig allir sammála að tilvísun til knattpsyrnunnar er jákvæð ímynd sem áunnist hefur með afrekum einstaklinga og liðsheilda, sem skapað hafa bæjarfélaginu sérstöðu meðal annarra sveitarfélaga og eflt með íbúunum stolt, sem ekki verður metið til fjár.  Vegna knattspyrnunnar og þess árangurs sem þar hefur náðst, þá hefur umfjöllun innlendra og erlendra fjölmiðla um Akranes varpað jákvæðu kastljósi á Akranes, sem er ómetanlegt litlu samfélagi með stórt hjarta.  Það kemur því ef til vill engum á óvart að Ríkharður Jónsson, sem er samnefnari allra knattspyrnumanna á Akranesi, sé gerður að heiðurborgara bæjarfélagsins.  Ég vil leyfa mér að hlaupa á helstu æviatriðum Ríkharðs: 


 


Ríkharður Jónsson


Ríkharður Jónsson er fæddur í Reynistað á Akranesi þann 12. nóvember árið 1929.  Foreldrar hans voru þau Jón Sigurðsson, sjómaður, verkamaður og hafnarvörður frá Lambhaga og Ragnheiður Þórðardóttir frá Vegamótum á Akranesi. Frá unga aldri stundaði Ríkharður íþróttir og þá einkum knattspyrnu og gekk snemma til liðs við Knattspyrnufélag Akraness, KA.  Hann var í fyrsta meistaraflokksliði ÍA árið 1946 þá aðeins 16 ára gamall.  Á árunum 1947 ? 1950 stundaði Ríkharður nám í Iðnskólanum í Reykjavík og útskrifaðist þaðan sem húsamálari, bílamálari og dúklagningarmeistari.  Meðan Ríkharður stundaði nám sitt lék hann knattspyrnu með Fram, en að námi loknu flutti hann að nýju á Akranes og lék með liði ÍA alla tíð síðan auk þess sem hann þjálfaði liðið um 18 ára skeið.  Árið 1946 var Ríkharður, þá 16 ára, valinn í landsliðhóp vegna leiks Íslands gegn Dönum, en árið eftir var hann valinn í annan landsleik íslendinga gegn norðmönnum og lék Ríkharður þar sinn fyrsta landsleik aðeins 17 ára gamall.


Eftir að hafa farið til Þýskalands í íþróttaskóla árið 1951 og til að leika þar knattspyrnu, þá kom Ríkharður á Akranes að nýju og tók við þjálfun Skagaliðsins samhliða því sem hann lék með liðinu.  Það ár var upphaf gullaldar knattspyrnunnar á Akranesi því þann 20. júní 1951 lauk Íslandsmótinu með sigri ÍA og varð félagið fyrst liða utan Reykjavíkur til að hampa Íslandsmeistaratitli.  Þar varð fyrsta gullaldarlið ÍA til.  Ríkharður Jónsson á að baki einstakan knattspyrnuferil og þótt tölfræðin segi ekki nema lítinn hluta sögunnar þá skal eftirfarandi getið:


 


Fjöldi leikja með ÍA                   185


Fjöldi marka                              139


Fjöldi Íslandsmeistaratitla             6


Ár sem þjálfari ÍA                      18 ár


Fjöldi landsleikja 1946-1965      33, þar af fyrirliði í 22 leikjum.


Fjöldi marka í landsleikjum         17


Landsliðsþjálfari                        1969 ? 1972


 


Ríkharður var formaður ÍA um árabil og er nú heiðursfélagi Íþróttabandalags Akraness og Knattspyrnufélags ÍA.  Ríkharður hefur verið sæmdur æðstu heiðursmerkjum ÍSÍ og KSÍ auk þess sem honum hefur verið veitt fálkaorða íslenska lýðveldisins.  Ríkharður sat í bæjarstjórn Akraness á árunum 1978 ? 1982 og sat í ýmsum nefndum fyrir bæjarfélagið fyrr og síðar.  M.a. sat hann í stjórn Sjúkrahúss og heilsugæslustöðvar Akraness í tæp 30 ár og var þar af formaður stjórnar í 10 ár.  Einnig sat hann í stjórn Grundartangahafnar í 3 ár.


Ríkharður giftist þann 25. desember árið 1949, Hallberu Guðnýju Leósdóttur.  Þau eiga fimm börn, þau Ragnheiði, Ingunni, Málfríði Hrönn, Sigrúnu og Jón Leó.  Barnabörnin þeirra og barnabarnabörn eru 26.


 


Knattspyrnuferill Ríkharðar Jónssonar er einstakur og ávann honum og Akranesi stóran hóp aðdáenda jafnt innlands sem utan.  Hefur nafn hans og bæjarfélagsins ætíð verið tengt afrekum hans á knattspyrnuvellinum og hefur þá bæjarfélagið notið ríkulega þeirrar athygli sem afrek hans verðskulda.  Af mörgum tilvikum er e.t.v. oftast nefnt að Ríkharður hafi skorað fjögur mörk í íslenskum sigri gegn feykilega sterku landsliði Svía þann 29. júní 1951 og að hann hafi allt fram til ársins 2007 verið markahæstur þeirra sem leikið hafa með íslenska landsliðinu.  Þá var Ríkharður nýlega kjörinn einn af 10 bestu knattspyrnumönnum Íslands fyrr og síðar.  Sigrar Ríkharðar Jónssonar og afrek hafa ávallt verið sigrar Akraneskaupstaðar og íbúanna á Akranesi.  Framganga hans innan sem utan vallar hefur alla tíð áunnið bæjarfélaginu velvild og jákvæða umfjöllun, sem skipt hefur bæjarbúa miklu máli og styrkt ímynd Akraness.  Í gullaldarliði Skagamanna voru margir frábærir knattspyrnumenn, en Ríkharður var þar fremstur meðal  jafningja.  Hann er ímynd gullaldarliðsins og þeirrar ríku hefðar sem knattspyrnan á Akranesi hefur áunnið sér með glæsilegum sigrum allt frá árinu 1951.  Hann hefur því verðskuldað áunnið sér virðingu samborgara sinna sem heiðursborgari Akraness." 


 

 


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00