Fara í efni  

Rauðhærðu fólki gert hærra undir höfði á Írskum dögum

Á Akranesi er nú í undirbúningi ein stærsta fjölskylduskemmtun sumarsins; Írskir dagar 2002. Þeir hefjast formlega fimmtudaginn 11. júlí með tveimur skemmtisiglingum fyrrum Akraborgar frá Akranesi og inná Hvalfjörð. Sú fyrri er ætluð yngri kynslóðinni en sú síðari fullorðnum. "Í henni verður boðið upp á veitingar og írska tónlist,? segir Sigurður Sverrisson formaður undirbúningsnefndar. Dagskráin nær hápunkti laugardaginn 13. júlí og lýkur á sunnudegi. Þann 11. júlí verða nákvæmlega fjögur ár frá því að Hvalfjarðargöngin opnuðu og Akraborgin hætti siglingum. ?Við ætlum að nota þetta einstaka tækifæri til að blanda saman nútíð og fortíð og því munu holdgervingar þeirra írsku bræðra; Þormóðs og Ketils Bresasona, stökkva frá borði við bryggju og nema land á ný. Þeir Bresasynir voru síðast á ferðinni um 880 þegar þeir námu land á Akranesi og komu þeir og afkomendur þeirra sér vel fyrir víða um héraðið. 


Dagskrá Írskra daga er þéttskipuð og telur um 40 dagskráratriði. Nær hún hápunkti með kvöldskemmtun á Akratorgi laugardaginn 13. júlí þar sem Kaffibrúsakarlarnir, Gospelkórinn, Fiðlusveitin og ýmsir fleiri skemmta. Írska hljómsveitin Ash Plant og Riverdansarar með þeim koma sérstaklega til landsins til að skemmta á Írskum dögum og mun sveitin halda skemmtun í Bíóhöllinni laugardagskvöld. Paparnir munu einnig verða með dansleik á Breiðinni, U2-project skemmtir í Bíóhöllinni, Nornakvöld verður í Húsinu og áfram mætti lengi telja. Svo háttar til á Akranesi að samhliða Írskum dögum er stærsta knattspyrnumót sumarsins í gangi á Skaganum með um 1100 þátttakendum. Af því tilefni einu sækja hátt í 3000 gestir bæinn heim. Sumargolfmót Bylgjunnar verður einnig þessa helgi á Garðavelli og mikil skemmtidagskrá sem fylgir því. Svokallaðir ?Tax Free? dagar verða ennfremur í verslunum á Akranesi þessa daga, þar sem hægt verður að gera góð kaup.
?Allir ættu að finna sér eitthvað til skemmtunar og dægradvalar á Akranesi þessa daga. Auk þess sem fyrr er getið má nefna sæþotur, kajaka og körtubíla, leiktæki, dorgveiðikeppni, sandkastalakeppni, markaðstjald, uppboð og fleira,? segir Sigurður og bætir því við að allir gestkomandi fái afhenta dagskrá írsku dagana við bæjarmörkin. ?Rauðhærðum gestum á Írskum dögum verður gert sérstaklega hátt undir höfði, enda rautt hár eitt helsta einkenni Íra. Allt rauðhært fólk fær sérstakan glaðning við komuna til bæjarins?, segir Sigurður og bætir því við að hann segist bjartsýnn á að samningar við veðurguðina takist einnig á næstunni. Gert er ráð fyrir að 10-15 þúsund gestir verði á Akranesi á Írskum dögum að þessu sinni.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00