Fara í efni  

Ráðstefna á Akranesi um breytta kennsluhætti

 
Sigurður Arnar frá Grundaskóla, Ólafur William Hand frá Apple og Guðbjartur Hannesson skólastjóri Grundaskóla skrifa undir samning

Miðvikudaginn 28. janúar s.l. gerðu Apple á Íslandi og Grundaskóli á Akranesi með sér samstarfssamning um framkvæmd á ráðstefnunni ?Breyttir kennsluhættir 2004?, sem haldin verður á vegum Apple IMC á Íslandi.  Ráðstefnan verður haldin föstudaginn 12. og laugardaginn 13. mars 2004 og hefst hún kl. 13:00 á föstudeginum og lýkur kl. 17:00 á laugardegi.  Ráðstefnan verður haldin í húsakynnum Grundaskóla en húsnæðið og allur aðbúnaður verður hluti af framlagi skólans til ráðstefnunnar. 

Tilgangur ráðstefnunnar er að kynna fyrir kennurum og öðrum áhugasömum þá möguleika sem stafrænt umhverfi hefur upp á að bjóða í hinu hefðbundna kennsluumhverfi.  Landsþekktar persónur bæði innlendar og erlendar koma til með að vera með erindi á ráðstefnunni og greina frá hvernig tæknin nýtist í raunveruleikanum ýmist til gerðar tónlistamyndbanda, heimildamynda, fjarkennslu og svo mætti lengi telja.  Grundaskóli hefur vakið mikla athygli fyrir frumkvæði og mikinn árangur í notkun tölvutækni í tónmenntakennslu og á s.l. skólaári eignaðist skólinn góðan búnað til að vinna að myndvinnslu og gerð alls kyns tölvuefnis. Skólinn fékk þróunarstyrk til að vinna enn frekar að slíkri kennslu og eru kennarar og nemendur 8. bekkjar byrjaðir að vinna að gerð kvikmyndar sem sýnd verður í tengslum við ráðstefnuna. Á ráðstefnunni verða kennarar skólans með kynningu á stafrænni mynd- og hljóðvinnslu í skólastarfi þ.m.t. kvikmyndagerðina.

 

Samninginn undirrituðu Guðbjartur Hannesson, skólastjóri Grundaskóla og Ólafur William Hand, framkvæmdastjóri Apple IMC, að viðstöddum m.a. nemendum og kennurum 8. bekkja Grundaskóla.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00