Fara í efni  

Orkufyrirtæki sameinast - Orkuverð lækkar

Fulltrúar Akraneskaupstaðar og Reykjavíkurborgar stefna að því að orkufyrirtæki sveitarfélaganna sameinist frá og með 1. desember 2001. Skrifað var undir viljayfirlýsingu þar að lútandi í bæjarþingsalnum á Akranesi þriðjudaginn 26. júní 2001. Eftir að sameinað orkufyrirtæki tekur til starfa verður sama gjaldskrá hér á Akranesi og í Reykjavík og orkureikningar bæjarbúa lækka verulega. Upplýsingum verður dreift til bæjarbúa á næstu dögum.
Viljayfirlýsingin er svohljóðandi:

V I L J A Y F I R L Ý S I N G


Borgarstjórn Reykjavíkur og bæjarstjórn Akraness lýsa hér með yfir að Orkuveita Reykjavíkur og Akranesveita, Andakílsárvirkjun og 53,7% eignarhlutur Akraneskaupstaðar í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar verði sameinuð frá og með 1. desember 2001. Aðilar eru sammála um eftirfarandi:


Eignarhlutur Reykjavíkurborgar í sameinuðu fyrirtæki verði um 94,5% og eignarhlutur Akraneskaupstaðar verði um 5,5% og er þar byggt á sameiginlegri matsskýrslu Deloitte & Touche hf. og Endurskoðunarskrifstofu Jóns Þórs Hallssonar.


Bæjarstjórn Akraness skipi einn fulltrúa í stjórn og einn til vara í hinu sameinaða fyrirtæki.


Sama þjónusta og gjaldskrá verði á Akranesi og í Reykjavík.
Starfsmönnum fyrirtækjanna verð tryggð áframhaldandi störf hjá sameinuðu fyrirtæki. Í þeirri vinnu sem framundan er við úrvinnslu málsins verður rætt við þá starfsmenn sem breytingar þessar snerta og haft samráð við þá um þau atriði sem að þeim snúa.


Höfuðstöðvar orkuveitunnar á Vesturlandi verði á Akranesi og vinnuflokkar verða gerðir út þaðan.


Á grundvelli framangreinds verði gert nánara samkomulag um útfærslu einstakra atriða.


Ástæða þess að ákveðið hefur verið að sameina rekstur þessara fyrirtækja er að framundan eru breytingar í orkumálum, sem nauðsynlegt er að bregðast við auk þess sem Hvalfjarðargöng hafa sameinað Reykjavík og byggð norðan Hvalfjarðar í eitt atvinnusvæði. Aðilar eru sammála um að ef um semst geti önnur sveitarfélög orðið aðilar að fyrirtækinu. Markmið breytinganna eru eftirfarandi:


Að sameinað fyrirtæki verði stærra og öflugra í breyttu samkeppnisumhverfi.


Að hagræðing verði í rekstri.


Að skapa ný sóknarfæri í sölu orku á veitusvæði fyrirtækisins.


Að efla rekstraröryggi veitukerfa og auka þjónustu.


Akranesi, 26. júní 2001


F.h. Akraneskaupstaðar, með fyrirvara um samþykki
bæjarstjórnar Akraness:
Gísli Gíslason bæjarstjóri (sign)


F.h. Reykjavíkurborgar, með fyrirvara um
samþykki borgarstjórnar Reykjavíkur:
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri (sign)


Forseti bæjarstjórnar Akraness:
Sveinn Kristinsson (sign)


Formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur:
Alfreð Þorsteinsson (sign)   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00