Fara í efni  

Nýtt Akranesskilti við Hvalfjarðargöng

Bæjaryfirvöld á Akranesi hafa ákveðið að efna til sérstaks átaks í ferðamálum, ekki síst til þess að hvetja Íslendinga til að heimsækja Skagann í meira mæli en nú er. Áformaðar eru ýmsar aðgerðir til að átakið megi heppnast sem best og má segja að átakið hafi formlega hafist nú laust eftir hádegið þegar nýtt og glæsilegt bæjarskilti var afhjúpað við Hvalfjarðargöng að viðstöddu fjölmenni, þrátt fyrir frekar hryssingslegt veður. 

 

?Allt bendir til þess að Íslendingar muni ferðast meira um eigið land á komandi árum og má segja að átakið sé sett af stað í tilefni af því. Mikilvægur þáttur í átakinu er að vekja athygli vegfarenda á því hve Akranes er skammt frá þjóðvegi eitt og að hér sé margt skemmtilegt í boði fyrir gesti og ferðafólk, ekki síst fjölskyldur. Skiltið er afar glæsilegt og kemur til með að vekja mikla athygli?, sagði Tómas Guðmundsson, verkefnastjóri Akranesstofu af þessu tilefni. Um er að ræða stóra fötu og skóflu, sem minnir á skemmtilegan dag á Langasandi, stóra golfkúlu og fótbolta en nefna má til gamans að fatan er tæplega 2 metrar að hæð. Á skiltinu stendur svo "Akranes - góða skemmtun!". ?Fullyrða má að hvergi á Íslandi er að finna skilti sem þetta, nema þá kannski kókdósina frægu við golfvöllinn í Borgarnesi, en sjón er sögu ríkari og ég hvet fólk til að fara og kíkja á skiltið?, segir Tómas ennfremur. 

 

Fleiri verkefni eru áformuð í tilefni átaksins og má þar m.a. nefna að hafinn er undirbúningur sérstaks tómstundagarðs sem áformað er að koma fyrir á Jaðarsbökkum, þar sem nú eru sparkvellir, skammt frá Akraneshöllinni. Það er danska ráðgjafarfyrirtækið Orion Tourism Marketing AS sem stjórnar þessari vinnu, en þetta fyrirtæki hefur m.a. komið að uppbyggingu Legolands í Danmörku. Nánari upplýsingar um átakið og einstök verkefni á vegum þess er hægt að nálgast hjá Akranesstofu.

 

 

 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00