Fara í efni  

Niðurstaða könnunar um þörf fyrir sveigjanlegum vinnutíma

Í apríl s.l. sendi markaðs- og atvinnuskrifstofa Akraneskaupstaðar könnun til 11 stórra fyrirtækja á Akranesi þar sem kanna átti hvort breyting þyrfti að verða á þjónustu hins opinbera til að auðvelda sveigjanleika í vinnutíma.  Markmið þeirrar könnunar var að kanna hvernig bærinn getur aukið og / eða breytt þeirri þjónustu sem hann býður upp á t.a.m. í leikskólum, grunnskólum, samgöngum o.fl. í þeim tilgangi að þjónustan nýtist starfsfólki fyrirtækja á Akranesi betur. 

Alls svöruðu níu fyrirtæki könnuninni.  Stjórnendur fyrirtækjanna voru beðnir um að kanna ákveðin atriði á meðal starfsmanna sinna og svara spurningunum í kjölfar þeirra viðtala / starfsmannafunda.


 


Helstu niðurstöður könnunarinnar.


 


Niðurstaða úr spurningu nr. 1:  Opnunartími leikskóla.
Starfsmenn sex af níu fyrirtækjum voru almennt mjög óánægðir með sumarlokun leikskólanna þar sem sumarfrí barnanna geta oft verið á skjön við sumarfrí foreldranna.  Einnig kom fram óánægja um að ekki sé tekið tillit til vaktavinnufólks og því gefinn kostur á sveigjanlegum tíma í barnapössun.  Aðrar athugasemdir varðandi þjónustu leikskóla Akraneskaupstaðar voru að fjölga þyrfti  dagvistunarplássum og lengja opnunartíma þ.e. að opna fyrr eða kl. 7:30. 


 


Niðurstaða úr spurningu nr. 2:  Almenningssamgöngur innanbæjar.
Starfsmenn fimm fyrirtækja af níu svöruðu spurningu nr. 2 á þá leið að almenn ánægja væri með almenningssamgöngur innanbæjar en sumir tóku það jafnframt fram að afar fáir starfsmenn nýti sér þá þjónustu þar sem flestir væru á einkabílum, gangandi og / eða hjólandi.  Starfsmenn þeirra fyrirtækja sem voru ekki ánægðir með þjónustuna vildu fjölga ferðum og fannst sumum þeirra að tímasetningar á stoppistöðvum væru rangar.   


 


Niðurstaða úr spurningu nr. 3:  Almenningssamgöngur utanbæjar.  Afgerandi óánægja er með almenningssamgöngur til og frá bænum en einungis eitt fyrirtæki sagði starfsmenn sína almennt ánægða með þá þjónustu sem boðið væri upp á í almenningssamgöngum utanbæjar. 
Þær athugasemdir sem starfsmenn fyrirtækjanna vildu koma á framfæri voru að fjölga þyrfti ferðum til og frá Reykjavík.  Starfsmenn fyrirtækjanna sakna ferðarinnar frá Akranesi kl. 13:00 en búið er að leggja þá ferð niður.  Einnig þótti starfsmönnum of dýrt að fara með rútu til og frá Reykjavík.  


Niðurstaða spurningu 4: Skóladagvist í grunnskólum á Akranesi.
Einungis eitt fyrirtæki gerði athugasemd við skóladagvistun barna og var hún á þá leið að þeir sem vinna í 50% vaktavinnu og vinna mikið um helgar þurfa að borga meira fyrir dagvist en þeir nota.  Önnur fyrirtæki svöruðu spurningu nr. 4 játandi að almenn ánægja væri á meðal sinna starfsmanna með skóladagvistunina sem boðið væri upp á í grunnskólunum á Akranesi.


 


Niðurstaða spurningu 5: Opnunartími og þjónusta í íþróttamannvirkjum.
Sjö af níu fyrirtækjum greindu frá því að starfsmenn þeirra væru ekki ánægðir með opnunartíma íþróttamannvirkja á Akranesi.  Flestir voru á því að lengja þyrfti opnunartímann.  Annars vegar að opna kl. 6:00 eða 6:30 og loka seinna á kvöldin og komu fram tillögur um lokunartíma frá kl. 21:00 til 23:00.  Einnig kom fram að lengja þyrfti opnunartíma um helgar þ.e. að loka seinna að deginum til. 
Bjarnalaug mætti vera mun meira opin en hún er í dag og kom það sama fram varðandi Íþróttahúsið við Vesturgötu. 
Ein athugasemd kom fram varðandi tækjasalinn á Jaðarsbökkum. 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00