Fara í efni  

Mögnuð dagskrá Írskra daga um helgina

 

 

Mikið verður um að vera á Akranesi um helgina en dagskrá Írskra daga er full af skemmtilegum og áhugaverðum viðburðum fyrir alla fjölskylduna. Þá stefnir í að veðurguðirnir ætli að vinna með Skagamönnum þetta árið svo útlit er fyrir skemmtilega daga á Skaganum næstu daga. Fjörið byrjaði í gærkvöldi á stórtónleikum með KK, Heru og hljómsveitinni Ízafold og svo rekur hver viðburðurinn annan. Ef þú vilt fá að vita meira - ýttu þá á meira!

 

 

Lopapeysan 2006?-mesta stuðball sumarsins!

 

Írsku dagarnir ná hámarki á laugardagskvöldinu með risatónleikunum ?Lopapeysunni 2006?, sem haldnir verða í mikilli sementsskemmu og í stórum tjöldum niðri við höfnina. Þar koma fram nokkrir af þekktustu skemmtikröftum landsins, en hitann og þungann af hljóðfæraslættinum bera hljómsveitirnar Todmobile og Paparnir. Einnig stígur á stokk hinn ástsæli söngvari, Raggi Bjarna en hann mun sjá um fjöldasöng ásamt fleirum. Kynnir Lopapeysunnar verður konungur Rokklands, Ólafur Páll Gunnarsson, en hann mun einnig snúa skífum af stakri snilld. Þetta verður í þriðja skipti sem Lopapeysan er haldin í tengslum við Írska daga. Í fyrra lukkuðust tónleikarnir í alla staði frábærlega, enda má segja að um sé að ræða einstakan viðburð. Til að tryggja góða aðstöðu og fjölbreytileika verða á stóru afgirtu svæði við sementsskemmuna sett upp tíu myndarleg veitingatjöld. Þar geta tónleikagestir gengið á milli ?bara? og upplifað mismunandi stemmningu. Aldurstakmark á Lopapeysuna er 18 ár.

 

 

 

Fótbolti og götugrill!

 

Málum bæinn gulan og mætum á Akratorg á föstudaginn. Þar verður grill og fjör fram eftir degi með stuðningsmenn ÍA, Skagamörkin í broddi fylkingar! Skrúðganga á völlinn og stemning allt fram að leik! Hefjum Írska daga með stæl og styðjum okkar menn! Svo er tilvalið að fara beint í götugrillin úti um allan bæ strax eftir leik og mæta svo á kvöldvökuna síðar um kvöldið, taka þátt og ekta brekkusöng að hætti Skagamanna! Svo þarf ekki að taka fram að lið Skagamanna hefur ekki þurft á öðrum eins stuðningi að halda um áraraðir og því mikilvægt að allir mæti og styðji við bakið á liðinu. Kynnið ykkur dagskrá stuðningsmannahátíðarinnar á Akratorgi og mætið á svæðið - Áfram GULIR!

 

 

 

Hittnasta amman á Akranesi - körfuskotkeppni við íþróttahúsið á Jaðarsbökkum.

 

Ömmur landsins! Nú reynir á ykkur. Ekki láta segja ykkur að þið getið ekkert í körfu! Aldur er afstæður og ömmur vita hvað þær geta ! Skráið ykkur til leiks í keppnina um Hittnustu ömmuna í körfubolta - sú amma sem hittir oftast úr fimm skotum á körfuna fær glæsileg verðlaun. Taktu stórfjölskylduna með og kláraðu dæmið! Áfram amma! Skráning á staðnum. Glæsilegir vinningar í boði - fyrir hittnustu ömmuna!

 

 

 

Rauðhærðasti Íslendingurinn

 

Á Írskum dögum eru allir rauðhærðir kallaðir saman og heiðraðir - þessi skemmtilega hátíð er um leið hátíð allra þeirra sem hafa stundum mátt þola mótlæti og stríðni sökum háralitar síns. Á Írskum dögum er þessu öfugt farið því þá er allir rauðhærðir sigurvegarar! Við veljum rauðhærðasta Íslendinginn og verðlaunum hann og verðlaunin eru ekki af verri endanum - utanlandsferð til lands rauðhærða fólksins - Írlands.  Ef þú ert með rautt hár og jafnvel skegg þá taktu þátt í þessari spennandi og metnaðarfullu keppni.  Vinsamlegast tilkynnið þátttöku á netfangið loa@akranes.is.

 

 

 

Sandkastalakeppni

 

Sandkastalakeppnin, sem fram fer á Langasandi á laugardeginum og hefst kl. 10:30 er í boði SS Verktaka og Húsasmiðjunnar á Akranesi - fyrirtækja sem kunna að byggja hús og vita hvað efniviðurinn skiptir miklu máli! Glæsilegir vinningar eru í boði og skóflur og fötur verða á staðnum fyrir þá sem mæta óundirbúnir til verks! Nú er tækifærið - taktu fram skóflur, fötur, múrskeiðar, úðabrúsa og annað nauðsynlegt - sestu niður með fjölskyldunni og hannaðu hið fullkomna mannvirki! Mættu svo í keppnina og láttu sköpunarkraftinn fá útrás!  Til gamans má nefna að formaður dómnefndar er Steve Christer, einn kunnasti arkitekt landsins sem meðal annars hannaði Ráðhús Reykjavíkur og hús Hæstaréttar!

 

 

 

Götubolti - hverjir eru laaaaaaangbestir?

 

Á laugardaginn fer fram fyrsta götumótið í fótbolta á Akranesi á sparkvellinum við Grundaskóla. Mótið fer þannig fram að götur bæjarins senda inn 5 manna lið til keppninnar og er spilað í 2 x 5 mínútur hver leikur. Riðlaskipting verður ljós á keppnisstað á laugardaginn þar sem skráningar fara einnig fram. Nú er því tilvalið að íbúar bæjarins fari að skipuleggja lið sín og æfa "föstu leikatriðin". Vonast er til að í liðunum verði fólk á öllum aldri og ef næg þátttaka fæst verður keppt bæði í karla- og kvennaflokki. Það kemur því í ljós á laugardaginn hvort það er Furugrund, Jörundarholt, Teigasel ... eða einhver önnur gata sem á besta liðið!

 

 

 

Glæsilegir vinningar í dorgveiðikeppni

 

Dorgveiðikeppni Írskra daga fer fram á s.k. ?Sementsbryggju? (sjá kort) en verslunin Módel hefur undanfarin ár verið styrktaraðili keppninnar og gefið glæsileg verðlaun. Veiðibúðin leggur einnig til vinninga og reyndar beitu líka en félagar úr Sjóstangaveiðifélaginu verða á bryggjunni og leiðbeina veiðimönnum. Veitt verða glæsileg verðlaun, m.a. veiðivörur og að sjálfsögðu bikar fyrir mesta aflann, stærsta fiskinn og flestar tegundir.

 

 

 

Stanslaus skemmtun frá morgni til kvölds

 

Fólk á öllum aldri getur fundið eitthvað við sitt hæfi á Írskum dögum. Go Kart bílar verða á planinu við Stjórnsýsluhús bæjarins og á Langasandi verða kraftmikil þotuskíði (Jet Ski). OgVodafone býður reyndar upp á öllu viðráðanlegri Go Kart bíla auk þess sem fyrirtækið býður öllum frítt í sund á laugardaginn og verður með alls kyns skemmtilegar þrautir í og við sundlaugina. Smábílaklúbburinn sýnir listir sýnar með fjarðstýrðum bílum og Björn Thoroddsen flugmaður sýnir listir sýnar í háloftunum. Amerískir kaggar setja svip sinn á bæinn og Sniglarnir stefna á hópferð á Skagann, fara hring um bæinn en leggja svo Safnasvæðið undir sig þar sem fólki gefst kostur á að skoða þessa mögnuðu mótorfáka.

 

 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00