Fara í efni  

Minigolf í Garðalundi

Búið er að setja upp mini-golfvöll í Garðalundi, á grasflötinni við innganginn í lundinn. Þar með bætist við enn ein nýjungin í Garðalundi í sumar en þann 17. júní sl. var nýr og glæsilegur grill- og útikennsluskáli tekinn í notkun í lundinum. Um leið var "tréhestum" Guðmundar Sigurðssonar, handverksmanns og þúsundþjalasmiðs komið fyrir við skálann en hestunum kemur til með að fjölga enn frekar á næstu dögum. Þessi listaverk Guðmundar eru hugsuð sem leiktæki fyrir börn og eru unnin úr trjávið úr Skorradal.


Komið hefur verið fyrir sjö mini-golfbrautum, hverri annarri skemmtilegri og erfiðari viðfangs en vonir standa til að fjölga megi brautunum í sumar. Trésmiðjan Akur á Akranesi annaðist hönnun, smíði og uppsetningu brautanna, sem eru opnar Skagamönnum, gestum og gangandi án endurgjalds í allt sumar. Fólk verður þó að mæta með sínar eigin kylfur og kúlur, a.m.k. fyrst um sinn á meðan reynsla fæst á verkefnið. Rétt er að hvetja fólk - af gefnu tilefni - til að ganga vel um þessa nýju aðstöðu sem og aðra sem sett hefur verið upp á svæðinu.


Á næstu dögum er stefnt að því að setja upp sk. "Frisbí-golf" í Garðalundi, en Frisbígolf mun vera íþrótt náskyld golfinu. Einnig verður komið þar fyrir "dótakassa" en í honum verða alls kyns leikir og tæki til skemmtunar, s.s. kubb og aðrir kastleikir, frisbídiskar og krokkett. Nánar verður fjallað um þetta þegar kassinn verður tekinn í notkun.

 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00