Fara í efni  

Mikið framundan í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akranesi

Á fundi bæjarráðs Akraness í dag var m.a. gerð eftirfarandi samþykkt:  "Bæjarráð samþykkir að fela Hönnun hf að auglýsa opið útboð á fjölnota íþróttahúsi ?(Akraneshöllin)? í samræmi við fyrirliggjandi útboðsgögn.  Jafnframt samþykkir bæjarráð að fela skipulags- og umhverfisnefnd að ganga frá eins fljótt og kostur er,  nauðsynlegu deiliskipulagi vegna byggingar hússins á Jaðarsbökkum. "

 


Fyrir liggja útboðsgögn sem gera ráð fyrir íþróttahúsi sem er 110 metra langt og 77,5 metrar á breidd.  Þar verður m.a. knattspyrnuvöllur sem verði 105x68 m, hlaupabraut með fjórum hlaupareinum og stökkgryfja.  Hæð hússins verður að lágmarki 12 metrar og 6 metra hæð yfir hliðarlínum. Óskað er eftir tilboðum í hús sem er óupphitað og óeinangrað, en sambærilegt hús má finna í Ballerup í Danmörku (topdanmarkhallen.dk).  Að auki er einnig gert ráð fyrir að gert verði frávikstilboð í upphitað og einangrað hús.  Auglýsing um útboðið verður birt á fyrstu dögum janúarmánaðar og tilboð opnuð í lok febrúar.  Áætlað er að framkvæmdir hefjist eigi síðar en 1. ágúst og verklok  verði 1. júní 2006 ef um óupphitað hús verður að ræða en annars 1.ágúst 2006.  Ekki þarf að fjölyrða um að bygging fjölnota íþróttahúss mun bæta aðstöðu á Akranesi til íþróttaiðkunar verulega, en auk framangreinds verkefnis mun starfshópur fara yfir framtíðarskipulag laugarsvæðisins á Jaðarsbökkum með það að markmiði að byggð verði ný sundlaug á svæðinu þannig að þar verði útilaug og yfirbyggð laug í framtíðinni.  Þá er nauðsynlegt að huga að annarri aðstöðu á laugarsvæðinu með tilliti til aðstöðu fyrir fjölskyldufólk og aðra sundlaugargesti og loks má nefna að ráðgert er að huga einnig að uppbygginu golfvallarins að Görðum.  Framundan er því mikið átak í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akranesi.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00