Fara í efni  

Málefni Sementsverksmiðjunnar

Málefni Sementsverksmiðjunnar hafa verið mikið til umfjöllunar að undanförnu  vegna fyrirhugaðrar sölu og eru nú til skoðunar 5 tilboð  sem bárust í kaup á verksmiðjunni.  Eftir að frumvarp um heimild til þess að ríkissjóður selji verksmiðjuna var samþykkt, sendi bæjarráð Akraness og bæjarstjóri bréf til iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra, dags. 7.3.2003, þar sem m.a. var lögð áhersla á að við sölu verksmiðjunnar nái hún aftur fyrri stöðu sem öflugt, innlent framleiðslufyrirtæki.  Bæjarráð fjallaði um málið á fundi sínum þann 13. mars s.l. og var eftirfarandi samþykkt gerð og var jafnframt send iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra:  "Bæjarráð leggur ríka áherslu á að við undirbúning á sölu Sementsverksmiðjunnar verði gert ráð fyrir því að rekstri verksmiðjunnar verði haldið áfram og starfsemi hennar efld.... 

Í því skyni þarf m.a. að tryggja að samkeppni við innflutt sement verði á jafnræðisgrundvelli og í samræmi við eðlilega viðskiptahætti.  Af hálfu forstjóra Aalborg Portland hefur komið fram að innreið hins danska framleiðanda sé til þess gerð að ná undir sig íslenskum sementsmarkaði og að á þeim markaði sé ekki rými fyrir tvo aðila.  Bæjarráð telur brýnt að við þessu verði brugðist með viðeigandi hætti til að tryggja áframhaldandi framleiðslu á íslensku sementi. 
Þá hefur bæjarráð komið því sjónarmiði á framfæri við eiganda Sementsverksmiðjunnar að lóðir sem afhentar voru undir rekstur verksmiðjunnar án endurgjalds verði að nýju afhentar Akraneskaupstað komi til sölu verksmiðjunnar, en lóðarleigusamningur verði gerður við kaupstaðinn um afnot fyrirtækisins á því svæði sem verksmiðjan þarf á að halda á hverjum tíma".


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00