Fara í efni  

Leikskólinn Vallarsel 25 áraLitaglöð börn í Vallarseli
Fimmtudaginn 27. maí s.l. var haldið upp á 25 ára afmæli leikskólans Vallarsels og bauð foreldrafélagið til grillveislu af því tilefni.  Dagana á undan höfðu börnin unnið skreytingar og hljóðfæri og gafst velunnurum leikskólans  kostur á að sjá börnin í þessari vinnu í "opnu húsi " fyrr í vikunni.  

Garðurinn var skreyttur og hver deild einkennd með sama lit.  Til að undirstrika það gaf foreldrafélagið börnunum boli í sömu litum.   Afmælissöngurinn var síðan sunginn við undirleik heimatilbúnu hljóðfæranna og aðstoð Bryndísar Bragadóttur.


 


Veðurguðirnir léku ekki alveg við okkur því þegar afmælishátíðin hófst kl. 16:00 opnuðust gáttir himinsins og  lokuðust ekki aftur fyrr en hátíðinni lauk kl.18:00.  Þrátt fyrir rigningu létu gestir það ekki á sig fá en gæddu sér á grilluðum pylsum með öllu tilheyrandi.


 


Leikskólastjóri setti hátíðina og rakti lauslega byggingarsögu skólans.  Það var 20.maí árið 1979 sem Vallarsel var opnað og voru þá tvær deildir fyrir hádegi og tvær eftir hádegi eins og tíðkaðist í þá daga.  Slíkt fyrirkomulag þekkist vart í dag.  Vorið 1982 var hafist handa við að byggja eina deild í viðbót.  Þeim áfanga lauk vorið 1985 er dagheimilisdeild var þá opnuð.  Það tók sem sagt þrjú ár að byggja hana.


 


Í júní 2003 tóku börnin í Vallarseli fyrstu skóflustunguna að stækkun skólans um þrjár deildir.  Í ágúst sama ár var hafist handa og það liðu aðeins átta mánuðir þar til  byggingin var tekin í notkun.  Fyrir um 20 árum tók það þrjú ár að byggja eina deild, en í dag tók það aðeins átta mánuði að byggja þrjár deildir.


 


Við eigum góðan og skemmtilegan leikskóla með frábæru starfsfólki og dugmiklu foreldraráði.  Við óskum öllum á Akranesi til hamingju með Leikskólann Vallarsel.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00