Fara í efni  

Landupplýsingakerfi, nýjung á vef Akraneskaupstaðar

Guðmundur Páll vígir kerfiðFimmtudaginn 17. okt. s.l. vígði formaður bæjarráðs, Guðmundur Páll Jónsson, nýjung sem tengist vef Akraneskaupstaðar, en það var svokallað Landupplýsingakerfi. Kerfið er framleitt í samstarfi Ísgraf og tæknideildar Akraneskaupstaðar og hefur verið í vinnslu um nokkurt skeið. Kerfinu er ætlað að auka aðgengi bæjarbúa að opinberum upplýsingum, einkum þeim er tengjast tæknideild bæjarins. Vefurinn er lagskiptur og getur notandinn kallað fram upplýsingar um ákveðið svæði í bænum svo fremi sem þessar upplýsingar liggi fyrir á tölvutæku formi hjá tæknideild Akraneskaupstaðar. Það skal skýrt tekið fram, til að forða misskilningi, að hér er um frumvinnslu landupplýsingakerfis bæjarins að ræða en alls ekki lokaútgáfu vefjarins.

Vefur þessi verður í stöðugri þróun en nú þegar er hægt að kalla fram teikningar af ákveðnum svæðum, götum, lóðum og húsum. Auk þess eru viðkomandi fasteignir tengdar við fasteignamatsgrunn og þjóðskrá. Tæknideild er nú búin að setja á rafrænt form teikningasafn byggingafulltrúaembættisins. Notandinn getur þannig séð á landupplýsingavefnum hvaða teikningar eru til af viðkomandi fasteign. 

 

Í framhaldinu er m.a. gert ráð fyrir að við landupplýsingakerfið tengist veitukerfi OR en þá verður hægt að kalla fram upplýsingar um t.d. heitt og kalt vatn, rafmagn og þ.h. Einnig er fyrirhugað samstarf við Landssímann þannig að í framtíðinni verði hægt að sjá símalagnir, tengimöguleika og fl. Loks má geta þess að fyrirhugað er að setja inn á landupplýsingavefinn uppl. um lausar lóðir í bænum og með samstarfi við fasteignasala mætti t.d. setja inn staðsetningu fasteigna á sölu með tengingu við söluupplýsingar þeirra.

 

Eins og sést á þessari upptalningu gefur landupplýsingakerfið mikla möguleika en fyrst og fremst er því ætlað að auka upplýsingastreymi til íbúa bæjarfélagsins og auka þannig þjónustu.

 

Landupplýsingakerfið er nú staðsett undir "Íbúaþjónusta". Athugið að lesa þarf inn ákveðinn hugbúnað til að geta tengst landupplýsingakerfinu. Þessi hugbúnaður liggur fyrir að kostnaðarlausu fyrst þegar kerfinu er tengst.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00