Fara í efni  

Landsmót Samfés fór vel fram á Akranesi

Landsmót Samfés 2014 fór fram á Akranesi liðna helgi og var það í alla staði mjög vel heppnað. Árlega sækir mikill fjöldi ungmenna mót sem þessi og nú í ár voru gestir rúmlega 400, þar af rúmlega 320 unglingar.

Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri setur landsmótiðÁ föstudeginum setti Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri, 25 landsmót Samfés og Andri Ómarsson formaður Samfés tók því næst við og fékk alla með sér í fjölmennasta Hókí-póki sem sögur fara af. Að því loknu var boðið upp á heljarinnar grillveislu og kvöldvöku auk þess sem unglingarnir kusu sér fulltrúa í Ungmennaráð Samfés.

Á laugardeginum var boðið upp á smiðjuvinnu eins og venjan er. Hægt var að velja um tvær tegundir af smiðjum, valdeflingarsmiðjur og afþreyingarsmiðjur, og þurftu allir að taka þátt og fara í eina af hvorri tegund. Alls gátu ungmennin valið út 14 valdeflingarsmiðjum og 14 afþreyingarsmiðum og því auðvelt að finna eitthvað við sitt hæfi. Að lokinni smiðjuvinnu var frjáls tími. Einhverjir nýttu tækifærið og skelltu sér í sund, aðrir horfðu á fótbolta á meðan enn aðrir nýttu tímann til þess að kynnast nýjum félögum. Um kvöldið komu svo allir saman í íþróttahúsinu við Vesturgötu og gæddu sér á dýrindis hátíðarkvöldverði. Þar átti hópurinn notalega stund. Kvöldinu lauk síðan með stórdansleik í Fjölbrautaskóla Vesturlands.

Á sunnudag hélt nýkjörið Ungmennaráð Samfés landsþing sitt. Þingið tókst með ágætum og voru umræðurnar bæði líflegar og skemmtilegar. Helst ber að nefna að unglingar kalla eftir betri kynfræðslu í skólum og ennfremur meiri fræðslu um fjármála- og fjölmiðlalæsi. Þingmönnum var boðið að mæta á þingið og þáði Guðbjartur Hannesson boðið og fylgdist með þingstörfum. Að landsþingi loknu var boðið upp á grillaðar pylsur áður en allir héldu heim á leið.

Akraneskaupstaður vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem lögðu sitt af mörkum til að gera Landsmót Samfés á Akranesi 2014 að veruleika.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00