Fara í efni  

Jónsmessuskemmtun 2003

Það var margt um manninn á Safnasvæðinu að Görðum á Akranesi laugardaginn 21. júní s.l. Eftir bráðskemmtilegt Landsmót kleinusteikingarfólks, þar sem 700 gestir voru á svæðinu, tóku 100 manns þátt í ratleik og um 300 manns söfnuðust saman við varðeld til að halda upp á Jónsmessuhelgina.  Veðrið var eins og best var á kosið og börnin léku sér langt fram eftir kvöldi.

Alls hlupu 8 lið um titilinn Besti, fljótasti og skipulagðasti vinnustaðurinn á Akranesi. Keppnin var stórskemmtileg og var það mál manna að fleiri fyrirtæki tækju þátt að ári. Vinnustaðahóparnir lögðu af stað með sérútbúin ratleikjakort og leituðu upp stöðvar á sem skemmstum tíma. Stöðvarnar voru víða um bæinn og lögðu flestir keppendur af stað á reiðhjólum.


 


Sigurvegari keppninnar var sameiginlegt lið skrifstofu Akraneskaupstaðar á Stillholti og Dalbraut en þau komu í mark á tímanum 50:57. Í öðru sæti var Grundaskóli og í þriðja sæti var lið Landmælinga Íslands.  Á einni stöð voru keppendur beðnir um að byggja fallegan kastala á Langasandi. Myndir voru teknar af kastalanum og síðan var fallegasti kastalinn valinn.  Bæjarstarfsmenn voru einnig hlutskarpastir í þeirri keppni. 


Samtímis fór fram lítill fjölskylduratleikur sem fór fram á mun minna svæði.  Gaman var að sjá foreldra hlaupa með börnunum sínum í gegnum Garðalund og safnasvæðið í leit að stöðvum. 


Seinna um kvöldið var síðan varðeldur á svæðinu og héldu Gísli S. Einarsson ásamt Skátafélagi Akraness uppi stórkostlegri skemmtun fram eftir kvöldi.  Eitthvað gekk nú erfiðlega að kveikja upp í brennunni en það hófst að lokum.  Það var feikna gaman hjá öllum þeim sem viðstaddir voru og eiga hópsöngsstjórar hrós skilið fyrir frábæra stjórnun.


 


Aðalsteinn Hjartarson
Sviðsstjóri tómstunda- og forvarnarsviðs


 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00