Fara í efni  

Íslenskir ferðamenn fjölmenna á Vesturland

Í nýlegri könnun sem fyrirtækið MMR vann fyrir Ferðamálastofu um ferðalög og ferðavenjur  Íslendinga á síðasta ári kemur margt athyglisvert í ljós. Þar kemur m.a. fram að Akranes og Borgarnes eru í þriðja efsta sæti yfir þá staði eða svæði sem Íslendingar  heimsóttu á ferðalögum sínum innanlands á árinu 2011, næst á eftir Þingvöllum, Geysi og Gullfossi (Gullna hringnum) í öðru sæti og Akureyri í því fyrsta. Endurspeglar þetta því hversu mikilvægur markhópur Íslendingar eru fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu og um leið fyrir sveitarfélögin, sem halda úti margvíslegri þjónustu fyrir þennan hóp. Í því sambandi má m.a. benda á að sundferðir er sú tegund afþreyingar sem Íslendingar sækja mest í, samkvæmt sömu könnun en sundlaugar eru flestar reknar af sveitarfélögunum. Liðlega 66% innlendra ferðamanna fóru í sund eða jarðböð á ferðum sínum um landið.

 

Á dögunum var einnig gefinn út listi yfir bestu golfvelli landsins og þar er Garðavöllur, golfvöllurinn á Akranesi í þriðja efsta sæti. Í ljósi þess að u.þ.b. 20 þúsund hringir eru leiknir á Garðavelli ár hvert er ljóst að þessir gestir eru mikilvægir fyrir ferðatengda þjónustu á Akranesi.

 

Af þessu má draga þá ályktun að innlendir gestir og ferðafólk eru afar mikilvægir fyrir ferðaþjónustuna á Akranesi og ástæða til að horfa mjög til þessara þátta í því uppbyggingarstarfi sem hafið er á sviði ferðaþjónustu á Akranesi. Ekki má láta hjá líða að nefna að vinsældir tjaldsvæðisins í Kalmansvík á Akranesi hafa líka og án efa sitt að segja í þessum efnum. Á næstunni verður auglýst eftir áhugasömum aðilum til að koma að frekari uppbyggingu afþreyingar í bænum, s.s. hvalaskoðun, hestaferðum, skipulögðum skoðunar- og gönguferðum o.s.frv. Að undanförnu hefur gistimöguleikum á Akranesi fjölgað en ljóst er að fjölga þarf afþreyingarmöguleikum á svæðinu. Sömuleiðis eru uppi áform um frekari uppbyggingu á þjónustu við Langasand og þá standa vonir til að halda megi áfram uppbyggingu á fjölskylduvænni afþreyingu og þjónustu í Garðalundi.

 

Meðfylgjandi myndir eru úr Garðalundi og af Aggapalli við Langasand.

 

 

 

 

 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00