Fara í efni  

Írskir dagar verða haldnir fyrstu helgina í júlí!

Af gefnu tilefni skal það ítrekað að fjölskyldu- og menningarhátíðin Írskir dagar verður haldin fyrstu helgina í júlí eða dagana 4. - 6. júlí n.k. Menningarmála- og safnanefnd Akraneskaupstaðar tók þessa ákvörðun á fundi sínum nýverið. Er þetta breyting frá því sem verið hefur en hátíðin hefur að öllu jöfnu verið haldin aðra helgi júlímánaðar undanfarin ár. Er þetta m.a. gert til að koma til móts við óskir fjölda fólks sem haft hefur samband við skipuleggjendur hátíðarinnar og óskað eftir þessari breytingu. Ástæðan er fyrst og fremst sú að fólki hefur fundist hátíðin haldin of seint og því hafa þeir sem vilja taka þátt í Írskum dögum þurft að fresta eða breyta sumarleyfisáformum sínum þar sem hátíðin var haldin svo seint í mánuðinum. Einnig hefur verið bent á að fjöldi íþróttamóta fer fram um þessa helgi og því sýnt að margir verði fjarverandi um þá helgi. Þess vegna hefur nefndin ákveðið að færa Írska daga fram um eina viku.


Undirbúningur hátíðarinnar er hafinn og er nú unnið að skipulagi og útfærslu hennar, ekki síst í ljósi þeirra óláta sem fylgt hafa Írskum dögum undanfarin ár. Er þar haft til hliðsjónar margt af því sem fram kom á ráðstefnu sem haldin var á Akranesi sl. haust um skipulag og framkvæmd fjölskylduhátíða á Íslandi. Þá er einnig unnið að undirbúningi dagskrár og er ljóst að Írskir dagar verða líflegir og fjölskylduvænir þetta sumarið.

 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00