Fara í efni  

Íbúaþing á Akranesi 6. september 2003

Íbúaþing verður haldið  á Akranesi laugardaginn 6. september n.k.  Á þinginu gefst íbúum tækifæri til þess að taka virkan þátt í mótun framtíðarstefnu fyrir sveitarfélagið.  Hvernig vilja Skagamenn sjá bæinn sinn þróast?  Hvað mun einkenna Akranes sem bæ árið 2016?  Niðurstöður og hugmyndir íbúanna verða nýttar við endurskoðun aðalskipulags, sem nú stendur yfir.
Áhersla á samráð við íbúa fer vaxandi á Vesturlöndum og m.a. má nefna að í nýjum skipulagslögum í Bretlandi er gengið lengra í þá átt en nokkru sinni fyrr.  Hér á landi virðist þróunin stefna í sömu átt og hafa sveitarfélögin í auknum mæli reynt að mæta þörfum íbúanna með samráði í skipulagningu og stefnumótun

Með því að standa fyrir samráði við almenning svo framarlega í ferli aðalskipulagsgerðar er verið að breyta verklagi við skipulagsvinnu frá hinu venjulega verkferli til þess að sjónarmið íbúanna verða hluti af forsendum strax á fyrstu stigum.
Íbúaþingið skiptist upp í vinnuhópa þar sem farið er í gegnum hugarflug með þátttakendum og þar hafa allir jafna möguleika á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.   Í lok íbúaþings koma allir saman og fjalla um næstu skref.

 

Fyrir þingið er gert ráð fyrir að vinna með börnum sem munu kynna niðurstöður sínar á þinginu í máli og myndum. Einnig verður sérstakur vinnuhópur ungmenna að störfum á þinginu.
Íbúaþingið verður haldið eins og áður er komið fram laugardaginn 6. september n.k. kl. 10:00 og stendur yfir til kl. 16:00. Staðsetning íbúaþings verður auglýst sérstaklega þegar nær dregur. Hægt er að líta inn og taka  þátt í einum vinnuhópi eða fleirum eða vera með allan daginn.  Þetta er skemmtileg vinna og eru íbúar hvattir til að mæta og taka þátt í mótun framtíðarsýnar bæjarins.
Niðurstöður verða síðan kynntar í máli og myndum þriðjudagskvöldið 9. september.
Umsjón með verkefninu er í höndum skipulagsfulltrúa bæjarins og ráðgjafarfyrirtækisins Alta. 

 

Nánari upplýsingar veita:

 

Akranes: Ólöf Guðný Valdimarsdóttir, s. 433 1000
Alta: Hildur Kristjánsdóttir, s. 533 1676/661 8717

 

www.akranes.is


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00