Fara í efni  

Helgi Andrésson látinn

Föstudaginn 15. mars lést vinur minn, Helgi Andrésson, í hörmulegu bílslysi.  Fráfall hans er reiðarslag fyrir okkur öll og sorgin þung að kveðja þennan góða vin.  Helgi var m.a. um áratugaskeið formaður Starfsmannafélags Akraness, í stjórn Lífeyrissjóðs Akraneskaupstaðar og starfsmaður Rafveitu Akraness og Akranesveitu.  Allt sem hann tók sér fyrir hendur vann hann af einstakri áræðni og dugnaði.  Helgi var skemmtilegur maður og fylginn sér og eiga starfsmenn St.Ak. honum margt að þakka á þeim árum sem hann starfaði fyrir félagið. Sérstaklega má nefna þátt hans við uppbyggingu orlofshúsa St.Ak., þar sem hann vann ötullega að því að starfsfólk bæjarins ætti aðgang að fyrsta flokks orlofsaðstöðu.  Verða störf hans í þágu St.Ak. seint metin að verðleikum.  Hjá Rafveitu Akraness og Akranesveitu sinnti Helgi starfi sínu af einstakri trúmennsku og nú þegar leið að formlegum starfslokum sá hann fram á tíma til að sinna sjálfum sér betur en hann hafði gert á liðnum áratugum.  Í þeim breytingum sem hafa orðið á orkumálum á Akranesi á liðnum mánuðum var Helgi bæjarfélaginu gríðarlega mikilvægur starfsmaður og mun ég ævinlega minnast þeirrar trúmennsku sem hann sýndi þegar á reyndi.  Helgi vann að ýmsum trúnaðarstörfum með fimm bæjarstjórnum og bera þeir allir honum vel söguna.  Þann tíma sem ég hef unnið hjá Akraneskaupstað var samstarf okkar Helga traust og einstaklega farsælt.  Hann fór ætíð vel með þann trúnað sem honum var sýndur og var ráðagóður og hollráður.  Með Helga er genginn góður drengur og öflugur starfsmaður bæjarins.  Hans er sárt saknað, en eftir stendur minning um góðan mann.   Ég sendi fjölskyldu Helga, vinum og samstarfsfólki innilegar samúðarkveðjur fyrir hönd bæjarfélagsins.  Megi Guð blessa minningu Helga Andréssonar.


 


Gísli Gíslason, bæjarstjóri


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00