Fara í efni  

Hefðbundin dagskrá á Sjómannadaginn - Hátíð hafsins aflýst

Tekin hefur verið ákvörðun um að aflýsa fyrirhuguðum  hátíðahöldum á laugardaginn fyrir Sjómannadag, en slík hátíð hefur verið haldin  undanfarin 4-5 ár og kölluð Hátíð hafsins. Raunar hefur gætt nokkurs misskilnings í umræðum um þessa ákvörðun þar sem fullyrt hefur verið að Sjómannadeginum verði aflýst á Akranesi. Svo er að sjálfsögðu ekki enda ekki á færi stjórna eða nefnda Akraneskaupstaðar að aflýsa lögboðnum hátíðardögum landsmanna. Dagskráin á Sjómannadaginn næstkomandi sunnudag verður því með hefðbundnu sniði og er skipulögð af Sjómannadagsráði eins og ávallt.


Ákvörðun um að aflýsa Hátíð hafsins í ár var tekin af Stjórn Akranesstofu þegar ljóst var að fjármunir til viðburða voru skornir mikið niður í núgildandi fjárhagsáætlun kaupstaðarins. Stjórnin þurfti því að taka tilhögun og umfang viðburða til endurskoðunar og var þessi ákvörðun liður í því. Ákvörðunin um að aflýsa Hátíð hafsins mætti nokkurri óánægju meðal bæjarbúa og var hún því tekin til endurskoðunar í bæjarráði sem ákvað að veita fjármunum til þess að halda þessa hátíð.


Niðurstaðan er engu að síður sú að ekki verður unnt að efna til hátíðar á laugardaginn og kemur þar ýmislegt til; ekki fékkst nægjanlegur mannskapur til að halda utan um undirbúning og framkvæmd og fyrirvarinn of knappur til að takast mætti að halda hátíð af þeim metnaði sem að var stefnt og verið hefur á undanförnum árum.  


Engu að síður verður ýmislegt um að vera á Akranesi um helgina. Á Safnasvæðinu er nú fjöldi eldsmiða að störfum og verða þeir við iðju sína fram á sunnudag. Þá er von á hópi erlendra listamanna á Akranes á morgun, laugardag og standa vonir til þess að þeir nái að skapa listaverk sem haft verður til sýnis í sumar. Þeir byrja á að heimsækja eldsmiðina á Safnasvæðinu en halda þar næst á Breiðina þar sem listaverkið verður væntanlega skapað, seinni part dagsins. Þá verður stóri vitinn á Breiðinni opinn á morgun frá kl. 11:00 til 16:00 og svo verður opið á Aggapalli, enda fjölmennt sundmót í gangi á Jaðarsbökkum um helgina og því von á fjölda góðra gesta í bæinn, sem vilja eflaust njóta veðurblíðunnar við Langasand, ásamt heimamönnum.


Ítrekað skal að sjálfur Sjómannadagurinn verður á sínum stað í almanakinu og verða hátíðahöld á Akranesi í tilefni dagsins með hefðbundnu sniði og verður m.a. Sjómannadagsmessa og heiðrun sjómanna, blómsveigur verður lagður að minnisvarða um drukknaða sjómenn á Akratorgi og minningarathöfn verður líka í kirkjugarðinum á Akranesi.


Akraneskaupstaður óskar sjómönnum, fiskvinnslufólki og Skagamönnum öllum alls hins besta í tilefni af Sjómannadeginum.


 

 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00