Fara í efni  

Halli kominn á Sementsstrompinn

Glöggir íbúar á Akranesi tóku eftir því seinni partinn í gær að strompur Sementsverksmiðjunnar er tekinn að hallast í aust-norðausturátt eða í átt að leðjuþró verksmiðjunnar og yfir að Suðurgötu. Hallinn er ekki mikill, en þó sýnilegur frá ákveðnum sjónarhornum, t.d. frá Höfða og Langasandi. Strax og hallinn uppgötvaðist var látið vita og fóru starfsmenn Öryggismiðstöðvarinnar ásamt byggingatæknifræðingi seint í  gærkvöldi  með mælitæki og mældu hallann sem reyndist vera nokkrar gráður í aust-norðausturátt, eins og áður segir.

 


Samkvæmt upplýsingum frá Gísla Gíslasyni bæjarstjóra  og stjórnarmanni í SV er ekki um hættu að ræða fyrir nágranna af halla reykháfsins, að minnsta kosti ekki að svo stöddu. "Við munum ekki lýsa yfir hættuástandi að svo stöddu. Hér hefur sennilega orðið einhverskonar landsig eða gliðnun í bergi og líklega hefur skekkjan verið að aukast smám saman án þess að menn tækju eftir því fyrr en í gær. Við höfum kallað til færustu verkfræðinga til að kanna til hvaða aðgerða verður gripið til að rétta strompinn við hið fyrsta. Það er ljóst að gripið verður til skjótra aðgerða til þess m.a. að treysta undirstöðurnar. Verksmiðjan er í söluferli og viljum við ekki að þessi óvænti halli letji fjárfesta til að skoða málið áfram. Auk þess viljum við alls ekki fá þann orðróm á okkur að framvegis verði strompurinn nefndur "skakki turninn á Skaga","sagði Gísli. Hann hvatti þó íbúa til að fylgjast náið með tilkynningum og fréttum af framvindu málsins.


Gott sjónarhorn til að greina hallann er frá bílastæðinu við Langasand við enda Jaðarsbrautar.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00