Fara í efni  

Frumvarp að fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar 2010 lagt fram

Á bæjarstjórnarfundi 24. nóvember s.l. mælti bæjarstjóri fyrir frumvarpi að fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2010. Bæjarfulltrúar ræddu frumvarpið og óvissuþætti þess og lýstu yfir ánægju með að staðan virðist betri en reiknað hafði verið með. Gert er ráð fyrir breytingum milli umræðna en seinni umræða er ráðgerð á fundi bæjarstjórnar 15. desember n.k. 


Hafa verður þann fyrirvara að breytinga gæti orðið þörf á fjárhagsáætluninni þegar ríkisvaldið hefur tekið ákvarðanir um fjölþættar skattaálögur sem boðaðar eru. Óvissa er um aðgerðir ríkisvaldsins sem geta haft áhrif á tekju- og gjaldahlið fjárhagsáætlunar og verður farið yfir þær þegar þær liggja fyrir; m.a.er óvissa um virðisaukaskatt, jöfnunarsjóð, tryggingagjald o.fl. 


Vinna við undirbúning fjárhagsáætlunar 2010 hefur staðið nánast samfellt frá því í mars s.l. þegar sást í hvað stefndi. Vinnuhópur vann að tillögugerð um sparnað og skilaði tillögum til bæjarráðs þar að lútandi 29. apríl 2009 í fjölmörgum liðum sem þegar hafa skilað verulegum árangri í rekstri Akraneskaupstaðar. 


Á miðju ári var enn settur á vinnuhópur um sparnað og hagræðingu, skipaður af bæjarstjórn. Þessi vinnuhópur lauk störfum í september. Lagði hópurinn fram margvíslegar tillögur um sparnað og hagræðingu sem eru að skila árangri og er grunnurinn fyrir helstu breytingum við framsetningu frumvarps til fjárhagsáætlunar 2010. 


Unnið hefur verið að framsetningu áætlunarinnar með aðkomu og í samstarfi við  bæjarfulltrúa, sem hafa m.a. greitt atkvæði um þær tillögur sem koma til framkvæmda árið 2010 auk þeirra sem þegar hafa komið til framkvæmda á árinu 2009 og voru unnar í samráði við fjölskyldu- og framkvæmdaráð og starfsfólk í stofnunum Akraneskaupstaðar. 


Megin forsendur fjárhagsáætlunar eru: • Að sveitarfélagið standi áföll vegna efnahagshrunsins af sér til að geta haldið uppi lögboðinni þjónustu og annarri nauðsynlegri velferðar- og samfélagsþjónustu. 
 • Að jöfnuður náist í rekstri sveitarfélagsins á tímabilinu 2010-2013. 
 • Að afkomubati standi undir greiðslu langtímaskulda og nýrra fjárfestinga. 
 • Að aðhaldsaðgerðir lækki útgjöld Akraneskaupstaðar. 
 • Að trúverðuleiki fjárhagsáætlunar verði aukinn m.a. með bættu upplýsingaflæði til stjórnenda og starfsmanna 

Efnahagsforsendur:


Á árinu 2010 er reiknað með því að verðbólga lækki hratt og verði að meðaltali 5% á milli ára en verði komin nálægt 2,5%  verðbólgumarkmiði Seðlabankans í árslok 2010 og haldist lág og stöðug á komandi árum. Framangreindar forsendur eru í samræmi við forsendur við fjárlagagerð. 


Í forsendum áætlunarinnar er ekki spáð fyrir um þróun gengis en byggt á gengisvísitölu íslensku krónunnar eins og hún var í lok október s.l. eða um 235 stig.


 


Gísli S. Einarsson,


bæjarstjóri


 

 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00