Fara í efni  

Framkvæmdir við Vesturgötu

Sigurður Páll Harðarson sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs kynnti stöðu malbikunarframkvæmda við Vesturgötu á fundi bæjarráðs í dag. Verkfræðistofan Efla hefur verið fengin til að greina ástand götunnar og þá sér í lagi undirlag hennar og grunnvatnsástand. Gatan var fræst snemma í sumar en það var nauðsynlegt til þess að meta ástand steypunnar. Ennfremur hafa Veitur (OR) verið að skoða aðstæður en til stendur að endurnýja lagnir á hluta götunnar. Að sögn Sigurðar Páls eru tvær leiðir til að byggja upp götuna að nýju. Annarsvegar að setja svokallaða fljótandi jarðfyllingu sem væri um meter á þykkt. Fyllingin þyrfti að standa í einhverja mánuði til að ná fullu sigi þar sem ekki væri burðarhæft efni undir henni. Eftir að fullu sigi væri náð yrði malbikað. Hin leiðin er að grafa niður á burðarhæfan botn og vera með fyllingu sem væri allt að 2,5 metrar á þykkt. Ef sú leið yrði valin þá væri hægt að malbika strax og vinnu við fyllingu yrði lokið. Val á aðferðum ræðst af frekari rannsóknum á grunnvatnsástandi á svæðinu með tilliti til sighættu á nærliggjandi húsum og lóðum. Niðurstaða ætti að liggja fyrir í ágústmánuði. Bæjarráð þakkaði fyrir kynninguna og bókaði á fundi sínum mikilvægi þess að settar yrðu merkingar á götuna þar sem fram kæmu upplýsingar um framkvæmdina og eftir atvikum leiðbeiningar fyrir ökumenn.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00