Fara í efni  

Framkvæmdir hafnar í "Viskubrunni"

Nú er unnið að jarðvegsskiptum vegna grill- og útikennsluskála í Garðalundi í tengslum við verkefnið ?Viskubrunnur?, sem áður hefur verið til umfjöllunar m.a. hér á vef Akraneskaupstaðar. Má því segja að sýnilegar framkvæmdir í tengslum við Viskubrunnsverkefnið séu hafnar. Í framhaldinu verður hafist handa við að smíða sjálfan skálann, en byggingarefnið er að mestu trjáviður frá Skógrækt ríkisins í Skorradal og torf, en veggir skálans verða bæði úr tré og torfi. Einnig er gert ráð fyrir torfþaki á skálanum. Er þetta m.a. gert til að skálinn falli sem best að unhverfinu í kring.  


Eins og glöggir gestir í Garðalundi hafa eflaust tekið eftir hefur inngangshliðið þar verið fjarlægt en á næstunni hefjast framkvæmdir við nýjan inngang, þar sem m.a. er gert ráð fyrir torgi þegar komið er inn í lundinn. Listafólk á Akranesi hefur verið fengið til samstarfs um hönnun og útlit inngangsins. Meðal annarra mannvirkja má nefna útisvið sem kemur til með að bæta mjög aðstöðu til alls kyns viðburðahalds í Garðalundi, s.s. leiksýninga og tónleika. 


Einnig er unnið að undirbúningi margvíslegrar dagskrár sem ýmsum hópum, m.a. leik- og grunnskólabörnum verður boðið upp á, þar sem Viskubrunnur og Safnasvæðið verða í öndvegi en allt Akranes, frá fjalli til fjöru, verður einnig fléttað inn í dagskrána. Náttúra, menning og saga verður áberandi í allri þeirri dagskrá. Skólahópum víða að af landinu verður strax í haust boðið upp á að heimsækja Akranes og taka þátt í dagskrá sem hentar hverjum aldurshópi fyrir sig.  Einnig verður höfðað til fyrirtækjahópa og fjölskyldna, svo dæmi séu tekin. Á undanförnum árum hefur heimsóknum leik- og grunnskólabarna til Akraness fjölgað mjög og er ætlunin að byggja á því góða starfi sem ýmsir aðilar á Akranesi hafa lagt fram í þessum tilgangi. 


Akranesstofa hefur umsjón með Viskubrunnsverkefninu og veitir allar nánari upplýsingar um framgang og uppbyggingu þess.


 

 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00