Fara í efni  

Fjölbreytt menningarlíf á Akranesi um helgina

Vökudagar bjóða uppá glæsilega dagskrá alla helgina. Í dag kl. 17:00 hefst viðburðurinn Fjórir turnar – fjögurra turna tal sem er röð viðburða í fjórum mismunandi turnum á Akranesi. Hver viðburður stendur í um hálftíma og sá fyrsti verður í kirkjuturninum í Görðum kl. 17.00. Því næst verður farið í Krossvíkurvita, kl. 18.00 sem í daglegu tali er kallaður Guli vitinn, síðan að kirkjuturninum í Akraneskirkju kl. 19.00 og endað í Akranesvita á Breið kl. 20.00. Allt eru það listamenn sem tengjast Akranesi á einhvern hátt sem sjá um atriðin. Á sama tíma opnar samsýning starfsfólks, íbúa og dagdeildarfólks á Höfða þar sem myndlist, hannyrðir og annað handverk verður til sýnis til 5. nóvember næstkomandi. Í kvöld opnar ljósmyndasýning Vitans að Skólabraut 26 - 28 (í gamla Akrasporthúsinu). Sýningin stendur til 9. nóvember og er opin alla virka daga milli kl. 15-19.00 og um helgar milli kl. 13-18.00.

Laugardaginn 1. nóvember er afmælisveisla fyrir börnin og viðurkenningar afhentar vegna þátttöku í Bókaverðlaunum barnanna á Bókasafni Akraness milli kl. 11.30-12.30. Þá sama dag opnar Sýning hinna glötuðu verka sem er samsýning íslenskra og erlendra listamanna ásamt völdum verkum úr safneign Nýlistasafnsins. Það er Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri sem mun opna sýninguna formlega kl. 14 en sýningin mun standa til 30. nóvember. Skipið Gullfoss, sem er í eigu skagamanna mun sigla með gesti á opnunina frá Reykjavíkurhöfn kl. 13.00 á morgun.

Á laugardaginn kl. 15.00 opnar einnig samsýning 11 nemenda og 4 kennara úr Grundaskóla undir heitinu Lítum okkur nær -Sementsverksmiðjan og Breiðin. Leiðbeinandi verkefnisins er Helena Guttormsdóttir listakona. Í upphafi verkefnisins var Helena með fyrirlestur sem hjálpaði þátttakendum að hugsa út fyrir rammann og sjá Sementsverksmiðjuna og Breiðina í nýju ljósi. Sýningin verður opin á Vökudögum frá 1. nóvember - 8. nóvember á laugar- og sunnudögum frá kl. 14– 18.00 og virka daga frá klukkan 16- 18.00. Samsýning núverandi bæjarlistamanns, Ernu Hafnes myndlistarkonu og Dýrfinnu Torfadóttur gullsmiðs og skartgripahönnuðar opnar kl. 17.00 á Vitakaffi. Dýrfinna var bæjarlistamaður Akraness árið 2010.

Það er nóg um að vera fyrir alla aldurshópa á Vökudögum. Endilega fylgist með á facebook síðu Vökudaga og heimasíðu Akraneskaupstaðar.

 

 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00