Fara í efni  

Ferðaþjónusta skiptir miklu máli ? líka á Akranesi

Á dögunum auglýsti Akraneskaupstaður eftir áhugasömum aðilum til að taka þátt í uppbyggingu áhugaverðrar afþreyingar fyrir gesti og ferðafólk á Akranesi. Nýverið var birt könnun á vegum Ferðamálastofu þar sem fram kom að Íslendingar á ferð um eigið land virðast sækja mjög á Akranes og í Borgarnes; þessir staðir voru í þriðja sæti yfir þá staði sem Íslendingar heimsækja helst, næst á eftir Þingvöllum, Gullfossi og Geysi í öðru sæti og Akureyri í því fyrsta. Í ljósi þessa og annarra gagna sem benda til þess að ferðaþjónusta eigi eftir að skipta miklu máli hvað varðar atvinnuuppbyggingu á komandi árum, hafa bæjaryfirvöld á Akranesi lagt áherslu á ferðatengda uppbyggingu á Akranesi í samstarfi við ferðaþjónustuaðila í bænum.


Þetta kom m.a. til umfjöllunar í Skessuhorni í vikunni, þar sem rætt var við Árna Múla Jónasson, bæjarstjóra um málið. Viðtalið við Árna Múla fylgir hér í heild sinni: 


Hugmyndaríkt fólk láti til sín taka


Skessuhorn greindi frá því nýlega að Akranes og Borgarnes hafi verið í þriðja sæti í könnun sem MMR gerði fyrir Ferðamálastofu um ferðalög og ferðavenjur Íslendinga. Í könnuninni var mælt hvaða staðir á landinu voru mest sóttir af íslenskum ferðamönnum á síðasta ári og voru staðirnir tveir á eftir Þingvöllum, Gullfossi og Geysi sem voru í öðru sæti og Akureyri sem var í því fyrsta.


Að sögn Árna Múla Jónassonar bæjarstjóra á Akranesi er könnunin enn ein staðfesting þess að mörg sóknarfæri séu til staðar fyrir Akurnesinga í ferðaþjónustu. Áfram þarf að byggja upp þjónustu og afþreyingu fyrir ferðamenn í bænum. ?Ljóst er að bæjarbúar geta sótt fram í þessum efnum. Við hjá Akraneskaupstað köllum eftir því að hugmyndaríkir og framtaksamir einstaklingar nýti þessi tækifæri sem könnunin m.a. sýnir vel að eru þarna til að bjóða upp á margvíslega þjónustu og afþreyingu fyrir ferðamenn og afla þannig tekna og skapa atvinnu.


Sveltur sitjandi kráka


Aukinn fjöldi ferðamanna kallar á fjölbreyttari valmöguleika. Nálægðin við höfuðborgarsvæðið gefur margvíslega möguleika hvað varðar ferðaþjónustu við íslenska og erlenda ferðamenn og sérstaða Akraness er ótvíræð hvað þetta varðar og kostirnir og möguleikarnir eftir því. Sem dæmi mætti klárlega nýta miklu betur tengsl staðarins við sjávarútveg og nálægð við fiskimið og fallega og áhugaverða náttúru og bjóða upp á skoðunarferðir og afþreyingu sem því tengist, eins og sjóstangveiði eða hvalaskoðun eða þá fuglaskoðun frá sjó eða landi. Góðar aðstæður til hjólreiða hér í bæ mætti örugglega hagnýta með því að bjóða upp á hjólaferðir innan bæjar eða jafnvel lengri ferðir út fyrir bæinn með eða án leiðsögumanns. Gönguferðir um fallegar fjörur eða upp um fjöll og firnindi fyrir unga og gamla verða sífellt vinsælli og þá er ég viss um að hestaleiga gæti höfðað mjög til margra innlendra og erlendra ferðamanna með styttri ferðum fyrir fjölskyldurfólk og börn og/eða lengri ferðum fyrir þá sem reyndari eru á hestbaki. Garðalundurinn góði og svæðið við Langasand með þeirri frábæru aðstöðu sem þar er til útivistar og íþróttaiðkunar, sund og/eða sjóbaða og boltaleikja úti eða þá inni í Akraneshöllinni, gefa margvíslega möguleika til leikja, námskeiða og skemmtunar fyrir heimamenn og ferðafólk gegn hæfilegu gjaldi. Og það er auðvitað fullt af möguleikum og hugmyndum á þessu sviði sem ég hef ekki komið auga á og ekki nefnt hér. En fólk verður að bera sig eftir tækifærunum því að hér eins og alltaf sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær? segir Árni Múli.


Akraneskaupstaður hefur kallað eftir hugmyndum og tillögum að afþreyingu fyrir ferðafólk og heitið liðsinni við góðar hugmyndir í þessum málaflokki og segir Árni að bæjarfélagið sé reiðubúið að aðstoða þá sem vilja bjóða upp á afþreyingu og/eða þjónustu við ferðafólk af einhverju tagi á þann hátt sem því er mögulegt til dæmis varðandi kynningu og aðstöðu. ?Nú styttist óðum í sumarið og ferðamannavertíðina og því er afar mikilvægt að bæjarbúar taki nú við sér og komi fram með hugmyndir. Ég veit að í bænum býr margt framtakssamt og hugmyndaríkt fólk og það þarf að láta til sín taka. Þannig getum við staðið okkur enn betur í þjónustu við ferðamenn á Akranesi og gert samfélagið á staðnum gróskumeira en ella,? bætir Árni Múli við og minnir á að þeir sem hafa hugmyndir skuli endilega setja sig í samband við Tómas Guðmundsson verkefnastjóra Akranesstofu eða Helgu Rún Guðmundsdóttur í Upplýsingamiðstöðinni við Kirkjubraut til að koma þeim á rekspöl.

 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00