Fara í efni  

Ferðasaga frá Færeyjum og Hjaltlandi

Skagaleikflokkurinn tók þátt í norrænu verkefni fyrir unglinga nú í júlí.
Aðrir þátttakendur eru leikhópar frá Færeyjum og Finnlandi. Það átti að byggja á gömlum menningararfi, þ. e. Eddu okkar Íslendinga, Kalevala Finna og danskvæðum Færeyinga. Verkefnið var að frumkvæði Norrænu ráðherranefndarinnar og umsjónarmaður var verkefnisstjóri Norðurlandahússins í Færeyjum, Hedvig Westerlund.
Guðbjörg Árnadóttir tók að sér verkefnið fyrir hönd Skagaleikflokksins. Fljótlega varð Þrymskviða fyrir valinu og 12 (að lokum voru þau 11) krakkar á aldrinum 12-16 ára mættu einu sinni í viku eftir áramótin í Brekkubæjarskóla til að undirbúa sig og æfa. Hlé á æfingum var vegna páska, ferminga og samræmdra prófa, en þéttar æfingar voru í maí og að lokum frumsýnt þ. 1. júní sl. Hluti af verkinu var sýnt á kvöldsamkomu í Bíóhöllinni 17. júní og allt verkið við móttöku gesta á norrænu vinabæjarmóti.
Leikhópurinn fór svo til Þórshafnar í Færeyjum þ. 1. júlí sl. með sýningu á Þrymskviðu og næstu dagar fóru í að æfa inn hópatriðin. Finnar og Færeyingar sátu sveittir við að æfa upplestur á erindum úr Þrymskviðu (Reiður var þá Vingþór ...) og Íslendingarnir tóku að sér hlutverk blámanna, kúa og fleira í sýningum hinna. Hópur frá Finnlandi var með kvæði um Kullervó úr Kalevala og Færeyingar með Margrétarkvæði sem er gamalt danskvæði.
Hópurinn bjó í Kennaraskólanum í Þórshöfn en auk leiklistarkrakkanna voru líka ungir tónlistarmenn frá þessum löndum að æfa saman fyrir tónleika, alls um 70 unglingar auk stjórnenda og fararstjóra.
Sunnudaginn 7. júlí voru haldnir tónleikar og síðan leiksýningar í Norðurlandahúsinu í Færeyjum. Áheyrendur og áhorfendur klöppuðu þátttakendum lof í lófa fyrir góða frammistöðu. Snemma morguninn eftir var lagt af stað með Norrænu og siglt til Leirvíkur á Hjaltlandi. Daginn eftir voru æfingar og stutt kynnisferð um Leirvík og nágrenni, en um kvöldið voru svo tónleikar og leiksýningar. Að því loknu var farið um borð í Norrænu og siglt til Þórshafnar.
Þaðan var svo haldið heim á leið 11. júlí, allir þreyttir en ánægðir með ferðina.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00