Fara í efni  

Erna Hafnes útnefnd bæjarlistamaður á Akranesi

Bæjarlistamaður Akraness 2014 var útnefndur við hátíðlega athöfn á Akratorgi á þjóðhátíðardaginn og er það myndlistarkonan Erna Hafnes sem hlaut titilinn. Erna hefur haldið fjölmargar málverkasýningar á Akranesi og síðast hélt hún samsýninguna Frænkur í vita í Akranesvita með Hönnu Þóru Guðbrandsdóttur. Menningarmálanefnd óskaði eftir tilnefningum frá íbúum á Akranesi og fékk Erna flestar tilnefningar.

Fjallkona að þessu sinni var hin unga og efnilega Guðrún Valdís Jónsdóttir sem komst í fréttir á dögunum fyrir að hafa verið boðin háskólavist í bæði Harvard og Princeton í Bandaríkjunum næsta vetur.

Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri opnaði Akratorgið formlega með því að klippa á borða og Einari Benediktsson formaður framkvæmdaráðs setti nýjan gosbrunn af stað. Svo skemmtilega vill til að Einar er ættaður frá bænum Skuld sem stóð þar sem gosbrunnurinn er í dag. 

Það eru landslagsarkitektar hjá Landmótun sem eiga heiðurinn að hönnun hins nýja Akratorgs en tillaga þeirra vann fyrstu verðlaun í samkeppni um nýtt torg sem bæjaryfirvöld efndu til árið 2005. Aðalverktaki var Snjólfur Eiríksson garðyrkjumeistari á Akranesi en það var Kristbjörg Traustadóttir landslagsarkitekt sem hannaði gosbrunninn í samvinnu við Ingólf Hafsteinsson, sem sá um tæknilega útfærslu hans. Götur í kringum torgið hafa auk þess verið malbikaðar og stefnt er að því að halda áfram að hlúa að gamla bænum á Akranesi og byggingunum þar.

Matar- og antikmarkaður

Við torgið stendur svokallað Landsbankahús sem bærinn keypti árið 2012 og þar er meðal annars rekin upplýsingamiðstöð. Á þjóðhátíðardeginum var opnaður matar- og antikmarkaður í tilefni af 150 ára verslunarafmæli Akraneskaupstaðar, en markaðurinn verður svo opinn alla laugardaga í sumar til 2. ágúst frá kl. 13-17. Það er Hlédís Sveinsdóttir sem hefur umsjón með markaðnum en hún hefur áður séð um skipulagningu matarmarkaða í Hörpu í samstarfi við ljúfmetisverslunina Búrið. Þeir voru afar vel sóttir enda hafa vinsældir matarmarkaða hérlendis aukist verulega á undanförnum árum.
Á markaðnum á Akranesi er að finna bæði tilbúnar vörur og vörur til að taka með heim og matreiða þar. Má nefna humar, nautakjöt beint frá bónda, lambakjöt beint frá bónda, ópillaða íslenska rækju, upprúllaðar pönnukökur, broddmjólk, kryddbrauð, skyrkonfekt, mikið úrval lífrænna matvæla t.d. hnetur, möndlur, olíur, sósur og fleira, rjómaís beint frá bónda, þorsk, íslenska tómata, gúllassúpu og grænmetissúpu. Einnig er á markaðnum úrval arabískra rétta á borð við hummus og falafel sem íraskar konur búsettar á Akranesi sjá um að matreiða að ógleymdum allskyns gömlum gersemum og antikvörum á góðu verði. Gestir matarmarkaðarins geta svo notað hið nýja og endurbætta torg til að fara í ?pikknikk? en hægt verður að fá teppi og dúka að láni til þess.

Safn á sjötta hundrað róbóta

Þá var einnig opnuð róbótasýning þar sem gefur að líta á sjötta hundrað róbóta og geimtengdra leikfanga allt frá árinu 1950 til dagsins í dag. Um er að ræða safn í eigu Björgvins Björgvinssonar en það hefur ekki verið aðgengilegt almenningi fyrr en nú. Það eru Björgvin og eiginkona hans Kristbjörg Traustadóttir sem standa fyrir sýningunni í samstarfi við Akraneskaupstað en sýningin stendur fram í júlí. Hún er staðsett á Skólabraut 37 og aðgangur er ókeypis.

Sjá myndir


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00