Fara í efni  

Deiliskipulag Hvítanesreits fellt úr gildi

S.l. föstudag úrskurðaði Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingamála um kæru vegna breytinga á deiliskipulagi svonefnds Hvítanesreits.  Niðurstaða nefndarinnar var að fella úr gildi breytingu sem gerð hefur verið á deiliskipulaginu og eru forsendur úrskurðarins eftirfarandi:
"Samkvæmt 5. kafla skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 skulu skipulagsáætlanir settar fram í greinargerð og á uppdrætti.  Verður að telja að fyrirkomulag sem sýnt er á skipulagsuppdrætti aðalskipulags sé bindandi um gerð deiliskipulags þó ekki sé vikið að viðkomandi atriði í greinargerð aðalskipulagsins.  Var því, við gerð hinnar umdeildu skipulagsbreytingar, óheimilt að víkja frá því fyrirkomulagi gatnakerfis á skipulagssvæðinu sem sýnt er á gildandi aðalskipulagsuppdrætti Akraness.  Með sama hætti verður að telja að óheimilt hafi verið að víkja frá ákvörðun aðalskipulags um landnotkun lóðanna nr.  22 við Kirkjubraut og nr. 7 við Sunnubraut, en samkvæmt uppdrætti Aðalskipulags Akraness 1992-2012 eru lóðir þessar íbúðarlóðir en ekki til byggingar verslunar- og íbúðarhúss eins og áformað er með hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun."

 

 

Af framangreindu er ljóst að þær framkvæmdir sem hafnar eru á reitnum munu frestast um nokkurn tíma, en skipulags- og umhverfisnefnd Akraneskaupstaðar mun taka úrskurðinn til umfjöllunar og gera tillögu um framhald málsins.  Deiliskipulag Hvítanesreits hefur verið til umfjöllunar um nokkuð langan tima og hefur Akraneskaupstaður og sá verktaki sem hyggst byggja á svæðinu keypt upp húseignir og lóðir í því skyni að endurskipuleggja götumyndina við Kirkjubraut, sem mikill áhugi hefur verið á að lagfæra.  M.a. hefur íbúum við Kirkjubraut 22 verið boðið að ganga til viðræðna um kaup á þeirra eign, en afstaða þeirra til þess erindis liggur ekki fyrir.  Af hálfu Akraneskaupstaðar mun nú verða lögð áhersla á að leiða mál þetta til lykta á grundvelli þeirrar stefnumótunar sem skipulags- og umhverfisnefnd hefur áður samþykkt.   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00