Fara í efni  

Dagskrá Írskra daga aldrei glæsilegri

Helgina 9.-11. júlí verða Írskir dagar haldnir á Akranesi í fimmta sinn. Dagskráin hefur nú verið borin í hvert hús á Vesturlandi en hana er einnig að finna í formi PDF skjals hér undir hnappnum "Hvað viltu gera".  Á föstudag verður götugrill bæjarbúa sem sló í gegn á síðasta ári. Heyrst hefur að nú þegar séu íbúar hinna ýmsu gatna bæjarins farnir að tala sig saman til þess að skipuleggja enda góðir vinningar í boði fyrir bestu skreytingarnar og ekki síður bestu stemninguna.


 

Margir bestu skemmtikraftar þjóðarinnar munu leggja leið sína á Írska daga. Þeirra á meðal eru Eivör Pálsdóttir, Skítamórall, Paparnir og Dan Cassidy, Kalli Bjarni, Kristján Ársælsson, Yesmine Olson og Páll Óskar. Eitt stærsta knattspyrnumót sumarsins, Skagamótið, fer fram þessa sömu helgi auk þess sem Bylgjulestin verður á staðnum. Því er fyrirfram ljóst að mikið líf og fjör verður í bænum.


Meðal annarra dagskrárliða á Írskum dögum eru lopapeysuball þar sem Paparnir og Skítamórall munu halda uppi ekta írskri stemningu, dorgveiðikeppni, skemmtisiglingar um Hvalfjörð, strandblakmót, keppni í sandkastalabyggingum, Íslandsmeistarakeppni í sæþotuakstri, sundlaugarpartý, menningar- og markaðstjald og margt, margt fleira. Boðið verður upp á siglingar milli Reykjavíkur og Akraness alla helgina en það er Eldingin sem sér um fólksflutningana.


Eins og sjá má ætti enginn að vera fær um að láta sér leiðast á Írskum dögum og áhugasamir sem ekki hafa fengið dagskrána til sín í hús ættu að kynna sér hana nánar hér á akranes.is.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00