Fara í efni  

Ályktun bæjarstjórnar Akraness um Sundabraut í kjölfar birtingar málefnasamnings nýs meirihlutar í Reykjavík

Á 1276. fundi bæjarstjórnar Akraness þann 12. júní 2018 var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Í málefnasamningi Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna sem saman mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur kemur fram að nýr meirihluti spanni breitt pólitískt litróf með fjölbreytta sýn og ólíkar áherslur en sameinist um hagsmuni og lífsgæði borgarbúa og skynsamlega uppbyggingu Reykjavíkur til framtíðar.  

Bæjarstjórn Akraness vill minna borgarfulltrúa á að í Reykjavíkurborg er miðstöð opinberrar stjórnsýslu, helstu stofnanir á sviði menntunar og heilbrigðisþjónustu á Íslandi og þar er einnig helsta inn- og útflutningsgátt landsins.  Reykjavík er höfuðborg Íslands og því ber borgarfulltrúum að hugsa um og taka tillit til hagsmuna og lífsgæða allra landsmanna.

Samgöngur til og frá höfuðborginni eru gríðarlegt hagsmunamál þeirra sem sækja vinnu, nám og þjónustu til höfuðborgarinnar og því eru  það mikil vonbrigði að ekki skuli vikið einu orði að lagningu Sundabrautar í málefnasamningi nýs meirihluta í Reykjavík.  Það hefur legið fyrir um langt skeið að núverandi vegtenging að norðan og vestan inn í borgina er algerlega ófullnægjandi og undanfarin 20 ár hefur verið umræða um og unnið að tillögum um lagningu Sundabrautar án þess að málið hafi þokast áfram.

Bæjarstjórn Akraness skorar á Reykjavíkurborg og ríkið að hefja án tafar undirbúning að lagningu Sundabrautar, sem bætir umferð til og frá höfuðborginni og eykur umferðar- og almannaöryggi. Aðgerðarleysi og umkenningaleikur Reykjavíkurborgar og ríkisins hefur staðið of lengi og tími er kominn á aðgerðir með hagsmuni borgarbúa og Íslendinga allra að leiðarljósi.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00