Fara í efni  

Borgarafundur um samgöngumál

Reikna má með að veggjaldið í Hvalfjarðargöngin verði eitt aðalumræðuefni fundarins.
Miðvikudaginn þann 27. apríl næstkomandi verður haldinn í Grundaskóla borgarafundur um samgöngumál á Akranesi og í nágrenni. Skagamenn sem og aðrir eru eindregið hvattir til þess að mæta á fundinn og taka þátt í umræðum að honum loknum. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra mætir til fundarins og flytur þar framsöguerindi en einnig munu þeir Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands og Helgi Þórhallsson, aðstoðarforstjóri Íslenska járnblendifélagsins taka til máls.

Að loknum framsöguerindum verða pallborðsumræður með þátttöku framsögumanna auk þess sem Gísli Gíslason, bæjarstjóri á Akranesi, Páll S. Brynjarsson, bæjarstjóri Borgarbyggðar og Dagur B. Eggertsson formaður skipulagsráðs Reykjavíkur, munu blanda sér í umræðuna. Fundurinn er haldinn á vegum Markaðsráðs Akraness.


 


Tilefni þessa fundar er m.a. mikil umræða um lækkun og niðurfellingu gjaldsins í Hvalfjarðargöngin, bæði í fjölmiðlum og ekki síður á meðal íbúa á svæðinu enda mikið hagsmunamál hér á ferð. Nýverið lækkaði gjaldið reyndar umtalsvert en umræða um frekari breytingar er samt enn í gangi. Þá hafa nýlegar yfirlýsingar samgönguráðherra um framkvæmdir við Sundabraut blásið enn frekara lífi í þessa umræðu um samgöngur á milli höfuðborgar og Vesturlands.


 


Sundabraut er mikið hagsmunamál bæði fyrir þá sem sækja þurfa vinnu, skóla eða þjónustu til Reykjavíkur en ekki síður fyrir Reykvíkinga sjálfa. Þessi samgöngubót mun án efa færa síaukna þungaflutninga af götum borgarinnar og létta þannig verulega á þeim umferðarþunga sem er á helstu umferðaræðum borgarinnar. Þessu fylgir einnig greiðari umferð til og frá Sundahöfn, sem er stærsta og mikilvægasta vöruflutningahöfn landsins.  Sundabrautin kemur einnig til með að stytta verulega leiðina vestur og norður í land. Þá má nefna það hagræði sem er af þessu mikilvæga samgöngumannvirki fyrir Faxaflóahafnir og fyrirtækin á Grundartanga.


 


Hugmyndir um þverun Grunnafjarðar munu án efa verða ræddar á fundinum en þessar hugmyndir komu fram nú nýverið. Með þverun Grunnafjarðar styttist leiðin á milli Akraness og Borgarness og styrkir Akranes í sessi, einnig Fjölbrautaskólann og alla þjónustu í bænum. Lagt hefur verið til að færa þjóðveg eitt suður fyrir Akrafjall og mun hann þá liggja rétt við bæjarmörk Akraness og færa Akranes um leið í þjóðbraut. Einnig færast stóriðjurnar á Grundartangasvæðinu örlítið úr alfaraleið enda skoðun margra að starfsemin þar og þau mannvirki sem blasa við af þjóðveginum þurfi í sjálfu sér ekki að vera svona áberandi.


 


Umræddar samgöngubætur munu einnig styrkja í sessi almenningssamgöngur á milli höfuðborgarsvæðis og sveitarfélaganna norðan gangna, hafa í för með sér greiðari og öruggari umferð og minni slysahættu en nú er.


 


Fundurinn verður haldinn í Grundaskóla, Espigrund 1 á Akranesi og hefst kl. 20:00.


 


Dagskrá fundarins má sjá hér>>>   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00