Fara í efni  

Bæjarstjórnarfundur og málþing unga fólksins

10. fundur bæjarstjórnar unga fólksins á Akranesi var haldinn þriðjudaginn 29. nóvember sl.  Margar mjög góðar og áhugaverðar tillögur og ábendingar er varða  bæjarfélagið okkar komu fram hjá ungmennunum og verða þær að sjálfsögðu teknar til skoðunar.

 

Á fundinum var lögð áhersla á velferð nemenda og mannréttindi en nýlega sátu 25 ungmenni frá Akranesi námskeið um Kompás - kennsluefni um mannréttindi ungs fólks - í tengslum við þróunarverkefnið ,,Velferð nemenda" og er það unnið í samvinnu við Fjölskyldustofu, Þorpið, Brekkubæjarskóla, Grundaskóla, Akranesdeild RKÍ og Íþróttabandalag Akraness.

 

Fundurinn lagði áherslu á mannréttindi en eins og kom fram í framsögu á fundinum þá eiga mannréttindi ,,að tryggja öllum mönnum rétt til þess að njóta mannlegrar reisnar, eins og meðal annars kemur fram í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1948. Börn eiga að sjálfsögðu að njóta sömu mannréttinda og fullorðnir. Barnasáttmálinn er mjög mikilvægur samningur um réttindi barna.  Í honum eru reglur um það hvernig eigi að koma fram við börn og unglinga og hvernig eigi að passa upp á að þau fái að njóta alls þess sem gerir þau hraust, ánægð og ábyrg.  Börn þurfa á sérstakri vernd að halda.  Fullorðna fólkið og þeir sem stjórna í landinu bera ábyrgð á að börn fái þessa vernd.  Börn eiga að fá að tjá skoðanir sínar.  Fullorðna fólkið á að hlusta og taka mark á skoðunum barna eins og t.d. ef foreldrar skilja á barnið að fá að segja hvar það vill frekar búa og foreldrarnir eiga að taka mark á því eða allaveg reyna að gera allt sem þau geta.  Í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna stendur,,Sérhver manneskja er borin frjáls og jöfn öðrum að virðingu og réttindum" þetta verðum við að muna og hjálpa til við að þetta geti orðið að veruleika.? (Úr framsögu Sunnevu Ólafsdóttur nemanda úr Brekkubæjarskóla).

 

 

Fimmtudaginn 1. desember sl. var síðan haldið Málþing unga fólksins um velferð nemenda og mannréttindi og sóttu yfir 100 nemendur úr Brekkubæjarskóla og Grundaskóla þingið sem var haldið í Þorpinu. Bæjarstjórinn á Akranesi, Árni Múli Jónasson, sat einnig þingið með ungmennunum.  Málþingið er haldið í tengslum við þróunarverkefnið Velferð nemenda

 

Sex ungmenni héldu framsögu um mannréttindi í sinnu víðustu mynd en þó sérstaklega því sem snýr að málefnum barna.  Síðan tók við hópavinna þar sem unnið var með nokkrar spurningar er lúta að mannréttindum.  Þar var m.a. fjallað um það hvort nauðsynlegt sé fyrir bæinn okkar að setja sér mannréttindastefnu og hvort skólarnir þurfi mannréttindastefnu.  Þá var spurt hvort umhverfismál væru mannréttindi og hvernig væri hægt að auka skilning á ólíkum trúarbrögðum.

 

Óhætt er að fullyrða að málþingið hafi tekist mjög vel. Það má með sanni segja að unga fólkið hafi haft margt til málanna að leggja með ákveðnum skoðunum sínum þar sem þau láta sig mannréttindi miklu varða.  Niðurstöðurnar af málþinginu verða í framhaldinu  afhentar og kynntar bæjaryfirvöldum.

 

 

 

 

 

 

 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00