Fara í efni  

Bæjarstjórn samþykkir breytingar á tækni- og umhverfissviði.


Á bæjarstjórnarfundi þann 24. febrúar s.l. samþykkti bæjarstjórn Akraness samhljóða ýmsar breytingar á tækni- og umhverfissviði. Bæjarráð hefur á liðnum vikum farið yfir stjórnsýslu- og rekstrarúttekt sem ráðgjafafyrirtækið IBM framkvæmdi á tækni- og umhverfissviði. Í skýrslu IBM koma fram nokkrar tillögur varðandi breytingar á fyrirkomulagi og samþykkti bæjarráð að leggja til við bæjarstjórn eftirfarandi tillögur sem nú hafa verið samþykktar eins og fyrr greinir:


 

a) Að ráðinn verði frá og með 1. apríl n.k. tæknifræðingur eða verkfræðingur sem annist m.a. skipulagsmál, eignasjóð og landupplýsingakerfi samkvæmt nánari útfærslu sviðsstjóra tækni- og umhverfissviðs. Samkvæmt því verður ráðningarsamningur skipulagsfulltrúa, sem rennur út í lok júnímánaðar, ekki framlengdur í lok starfstímans.
b) Að starf tækniteiknara, sem m.a. sér um innskráningu landupplýsingakerfi, verði aukið úr 80% í 100%.
c) Að ráða í 50% starf slökkviliðsstjóra til eins árs, en að byggingarfulltrúi fari í umboði slökkviliðsstjóra og í samráði við hann, með mál sem varða brunaeftirlit. Á grundvelli fyrirhugaðs samnings við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins um gagnkvæmt samstarf o.fl. verði leitað eftir samkomulagi við SHS um samstarf varðandi æfingar slökkviliðsins. Ákvörðun þessi verður endurskoðuð innan eins árs m.a. með það í huga að skoða valkosti varðandi aukið samstarf við SHS.
d) Að ákvörðun um hvort sameina eigi Gámu og Þjónustumiðstöð verði frestað til ársins 2005 þegar samningar um sorphirðu o.fl. renna út. Þar til sú ákvörðun verði tekin verði umhverfisfulltrúi næsti yfirmaður forstöðumanns Þjónustumiðstöðvar og er sviðsstjóra tækni- og umhverfissviðs falið að skilgreina nánar verkefni á því sviði. Tilgangur þessa er að skerpa á framkvæmd verkefna á opnum svæðum og þeim, umhverfismálum sem Þjónustumiðstöðin kemur að.
e) Að sviðsstjóri tækni- og umhverfissviðs skipuleggi og skilgreini vinnsluferla við undirbúning deiliskipulags og vinnsluferli mála milli nefndarfunda.
f) Að sviðsstjóri tækni- og umhverfissviðs geri starfsmannafundi að virkari þætti í starfseminni og tryggi þannig framgang þeirra verkefna sem unnið er að, traust fjárhags- og verkeftirlit og að ætíð liggi fyrir gott yfirlit verkefna.
g) Að sviðsstjóri tækni- og umhverfissviðs taki til skoðunar aðgengi að starfsmönnum sviðsins, skipulagningu daglegs vinnutíma o.fl. með tilliti til efnis fyrirliggjandi úttektar.


 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00