Fara í efni  

Aukning útlána í Bókasafni Akraness

Ársskýrsla Bókasafns Akraness fyrir árið 2002 er komin út. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að útlán á árinu voru um 60.000. Væri útlánunum jafnað niður á íbúana hefði hver íbúi fengið um tíu safngögn að láni á árinu. Útlán jukust um 3000 frá árinu áður. Lán til barna voru um fimmti hluti útlána. Virkir lánþegar voru um 2.600 og gestakomur um 160 á dag.

Safnkosturinn taldi í lok ársins rúmlega 54.000 eintök. Þar af eru um 4.000 eintök í Haraldssafni. Safnkosturinn er fjölbreyttur og sem dæmi má nefna að reglulega berast safninu um níutíu tímarit. Einnig er safnið áskrifandi að gagnagrunninum hvar.is þar sem aðgangur er að fjölda gagnasafna.Helsta nýbreytni í starfi safnsins á árinu var sú að haustið 2002 hófst í húsakynnum þess fjarkennsla á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands. Starfsfólk bókasafnsins hefur umsjón með búnaði fjarkennslunnar en honum var komið fyrir í Svöfusal. Salurinn er kenndur við Svöfu Þorleifsdóttur sem var skólastjóri Barnaskóla Akraness um árabil. Sextán nemendur stunda nú háskólanám í Svöfusal.Bókasafn og skjalasafn voru formlega aðskilin í lok ársins, en starfa áfram í sama húsnæði.
 
Það er einnig nýbreytni að frá 1. október var bókasafnið opið á laugardögum frá kl.11-14. Þess má geta að fræðimenn og skólanemendur nýttu sér í auknum mæli vinnuaðstöðu á lessal safnsins á síðasta ári.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00