Fara í efni  

Auðveldara og ódýrara að nota Strætó

Nú í byrjun septembermánaðar verða umtalsverðar breytingar á almenningssamgöngum á milli Akraness og höfuðborgarsvæðisins sem eru mjög til þess fallnar að bæta þessa mikilvægu þjónustu við íbúa á Akranesi.  

 

Á dögunum voru nýir vagnar teknir í notkun á þessari leið sem eru á allan hátt þægilegri og betri en þeir gömlu voru, búnir öryggisbeltum og þá er þráðlaust internet í vögnunum sem gerir farþegum betur mögulegt  að nýta ferðatímann til náms, vinnu eða afþreyingar . Um næstu mánaðamót verða þær breytingar á akstri vagnanna að þeir fara alla leið í Mjódd alla daga nema laugardaga og þurfa farþegar því ekki  að skipta um vagn í Mosfellsbæ og batnar þannig líka  til muna tengingin við leiðakerfi Strætó á höfuðborgarsvæðinu.  Þá bætist við betri tenging  við landsbyggðina þar sem daglega verður ekið norður í land frá Reykjavík, um Akranes og í gegnum Borgarnes, Borgarfjörð,  Blönduós, Sauðárkrók og til Akureyrar. 

 

Nú þegar hafa tekið gildi breytingar á gjaldsvæðum en um leið breyttist gjaldskrá Strætó bs. með þeim hætti að fargjaldið á milli Akraness og Reykjavíkur lækkar um 350 krónur fyrir almenna notendur. Fjöldi gjaldsvæða til Akranes eru nú tvö en voru áður þrjú. Ef keypt eru farmiðaspjöld þá er  fargjaldið  nú 600 kr. fyrir fullorðna, 230 kr. fyrir unglinga 12-18 ára, 90 kr. fyrir börn 6 ? 11 ára og 210 kr. fyrir aldraða og öryrkja. Stærsta gjaldsvæðið er höfuðborgarsvæðið sem nær yfir 22 kílómetra en önnur svæði eru 11 kílómetrar, allt að Höfn í Hornafirði. Notendur  persónulegra korta á Akranesi verða þó að hafa í huga að niðurgreiðsla Akraneskaupstaðar af kortunum fellur niður og greiða þeir því sama verð og áður. Einnig er rétt að benda notendum á,  að hægt er að ferðast áfram innan leiðakerfis Strætó með því að nýta skiptimiða án kostnaðarauka fyrir farþega.    

 

Allar þessar breytingar á almenningssamgöngum koma án efa til með að styrkja mjög samfélagið hér á Akranesi og þá alveg sérstaklega m.t.t.  atvinnu og náms, jafnt á framhalds- og háskólastigi og bæta og stækka í raun það atvinnusvæði sem íbúar á Akranesi hafa nú aðgang að. Það má því segja að þannig verði enn betra og raunhæfara fyrir enn fleiri sá góði kostur að búa hér í öruggum, friðsælum og fjölskylduvænum bæ þar sem finna má ódýrt og gott húsnæði og fallega náttúru með fjölbreyttum útivistarmöguleikum innan seilingar en geta jafnframt ef þannig stendur á  sótt nám, atvinnu og afþreyingu til höfuðborgarinnar. 

 

Ég vil að lokum hvetja Skagamenn og aðra til að kynna sér vel þá kosti sem þessar breytingar á þjónustu strætó hafa í för með sér sem eru að mínu mati samfélaginu á Akranesi til stuðnings og framdráttar.

 

 

 

Árni Múli Jónasson,

 

bæjarstjóri.

 

 

 

 

 

 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00