Fara í efni  

Andvirði 120 milljóna króna til slysavarna og samfélagsmála á Akranesi

Í dag, þann 28. febrúar var Minningarsjóði Jóns Gunnlaugssonar útvegsbónda og Guðlaugar Gunnlaugsdóttur húsmóður frá Bræðaparti á Akranesi formlega slitið en sjóðurinn var stofnaður árið 1969. Stjórn minningarsjóðsins ákvað að ráðstafa eignum sjóðsins, 54 milljónum króna í reiðufé og lóðum að verðmæti 66 milljónum króna samkvæmt fasteignamati, með eftirfarandi hætti:

 • 15 milljónir króna fara til Björgunarfélagsins á Akranesi til endurnýjunar á björgunarbát félagsins.
 • 5 milljónir króna fara til Slysavarnadeildarinnar Lífar til umferðaröryggismála.
 • 14 milljónir króna verða settar í uppbyggingu á heitri laug við Langasand.
 • 10 milljónum króna verði varið til lagfæringar og varðveislu á Sæunni, Hjallinum og öðrum munum sem eru á Byggðasafninu í Görðum og tengjast Bræðraparti.
 • 10 milljónir króna renna til Akraneskaupstaðar vegna endurbóta á gamla vitanum á Breiðinni.

Þá fengu Björgunarfélagið og Slysavarnadeildin úthlutað lóðum á Breiðinni, fasteignarmat lóðanna er 66 milljónir króna.

Tilgangur með stofnun sjóðsins var að efla mannlíf og samfélag á Akranesi og veita ungum fátækum námsmönnum á Akranesi styrki til náms sem tengist sjávarútvegi. Með breyttum aðstæðum og atvinnuháttum á Akranesi hafa færri sótt um styrk úr sjóðnum en stofnendurnir hugðu. Það er því einróma vilji þeirra sem nú skipa stjórn sjóðsins að leggja sjóðinn niður og ráðstafa stærstum hluta hans til málefna tengdum slysavörnum og samfélagsmálum á Akranesi.  

Við athöfn í bæjarþingsalnum á Akranesi hélt Elín Sigrún Jónsdóttir sem er barnabarn Jóns og Guðlaugar og situr í stjórn Minningarsjóðsins stutta ræðu um ævi þeirra hjóna og um tilurð sjóðsins. ?Hugmyndin um stofnun Minningarsjóðsins varð til af tilefni 100 ára árstíðar Jóns árið 1968. Stofnfé sjóðsins var lagt fram af þálifandi börnum þeirra hjóna, sem jafnframt voru stofnendur sjóðsins? sagði Elín í ræðu sinni. Þá greindi Elín einnig frá ákveðnum atriðum í skipulagsskrá sjóðsins um hvernig skuli fara ef sjóðsstjórn ákveður að leggja sjóðinn niður, ?Þar kemur skýrt í ljós áhersla og virðing fjölskyldunnar fyrir slysavörnum en þar segir að eignir skuli renna til deildar Slysavarnarfélags Íslands á Akranesi?. Aðeins einn af stofnendum sjóðsins er enn á lífi, Inga M. Freeberg sem er á 91. aldursári og er það að frumkvæði hennar sem sjóðnum er núna slitið og lokað, ?Hún er mjög sátt við ráðstöfun eigna sjóðsins. Hennar hugur hefur ætíð verið á Akranesi og hún biður fyrir kærar kveðjur til íbúa og stjórnenda síns gamla bæjarfélags, sem fóstraði hana svo vel? sagði Elín ennfremur í ræðu sinni en Inga býr í Bandaríkjunum.

Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri sem jafnframt er formaður sjóðsstjórnar sagðist mjög ánægð með höfðinglegar gjafir til slysavarna á Akranesi og eins í verkefni sem munu nýtast samfélaginu vel. ,,Gamli vitinn á Breiðinni hefur verið valinn einn af áhugaverðustu vitum heims af erlendum ferðavefsíðum og endurbæturnar á honum eiga eflaust sinn þátt í því?

Auk Regínu skipuðu sjóðsstjórnina þau Sveinn Kristinsson forseti bæjarstjórnar Akraness og afkomendur þeirra Jóns og Guðlaugar, þau Elín Sigrún Jónsdóttir, Jón Már Richardsson og Hildur Guðmundsdóttir.
   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00